Aldan kastaði honum um borð aftur

Það þykir ganga kraftaverki næst að Gerry Beard skuli vera á lífi, en hann tók út af skútu þegar hann var á siglingu frá Reykjavík til Skotlands. Önnur alda kastaði honum hins vegar aftur um borð.

Sagt er frá þessum mannraunum í frétt BBC. Beard er 72 ára gamall Skoti, en hann sigldi einn á skútu sinni frá Reykjavík til Shieldaig í Skotlandi. Ferðin tók 11 daga.

Á laugardag, þegar hann var nærri ströndum Skotlands, skall þung alda á skútunni og féll Beard þá í sjóinn. Hann segir að fljótlega hafi hins vegar önnur alda gripið sig og kastað sér um borð aftur. Hann náði þá að virkja neyðarsendi og kalla þannig eftir hjálp. Björgunarmenn náðu síðan að bjarga honum og skútu hans.

„Aldan greip mig og reif hurðina af káetunni,“ sagði Beard í samtali við útvarp BBC í Skotlandi. „Ég hugsaði með mér: „Ég er hér aleinn.“ En þá hvarf allt vatnið og báturinn kom aftur til mín og ég endaði aftur í bátnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert