Mótmæla myndbirtingum

Fjölmargir tóku þátt í mótmælum í Afganistan í dag.
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum í Afganistan í dag. AFP

Hundruð Afgana tóku í dag þátt í mótmælum vegna birtingar skopmynda í frönsku ádeiluriti og kvikmyndar þar sem lítið er gert úr Múhameð spámanni í höfuðborg Afganistan, Kabúl.

Um 300 námsmenn tóku þátt í mótmælunum þar sem Frökkum og Bandaríkjamönnum var hótað en mikil reiði er meðal ýmissa múslíma vegna kvikmyndarinnar „Sakleysi múslíma“. Ekki bætti úr skák er vikuritið Charlie Hebdo birti í gær skopmyndir af Múhameð spámanni og búist er við að myndirnar kyndi undir mótmælum sem blossuðu upp í múslímalöndum í vikunni sem leið vegna kvikmyndarinnar. Mótmæli fóru einnig fram í fleiri borgum í Afganistan í morgun.

Frönsk stjórnvöld hertu í gær öryggisgæslu við sendiráð sín víða um heim og bönnuðu götumótmæli í frönskum borgum. Eins var frönskum skólum, til að mynda í Túnis, lokað fram yfir helgi í öryggisskyni.

Franska tímaritið birti myndir þar sem skopast er að kvikmyndinni umdeildu og á tveimur myndanna sést Múhameð spámaður nakinn. Eldsprengjum var kastað á byggingu tímaritsins í fyrra eftir að það birti skopmyndir í sérstakri útgáfu, sem nefndist Sharia Hebdo og var sögð vera í „gestaritstjórn Múhameðs“.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði að búist væri við mótmælum vegna skopmyndanna og sagði að frönsk sendiráð í um 20 löndum yrðu lokuð á morgun, föstudag.

Leiðtogar múslíma í Frakklandi gagnrýndu tímaritið fyrir að birta „móðgandi“ myndir af Múhameð spámanni en sögðu að lesin yrði yfirlýsing í moskum eftir föstudagsbænir á morgun þar sem múslímar yrðu hvattir til að efna ekki til mótmæla.

Yfir 30 manns hafa beðið bana í mótmælum og árásum vegna kvikmyndarinnar „Sakleysi múslíma“, þeirra á meðal tólf sem féllu í sprengjuárás í Afganistan í fyrradag. Í myndinni er Múhameð spámanni lýst sem flagara og hann gerður að blóðþyrstum leiðtoga manna sem njóti þess að drepa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert