Gyðingaárásum fjölgar í Frakklandi

Francois Hollande forseti Frakklands
Francois Hollande forseti Frakklands AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti hét frönskum gyðingum því í dag að öryggisgæsla við sýnagógur, samkunduhús gyðinga, í landinu verði aukin verulega vegna aukinna árása sem raktar eru til gyðingahaturs. Franska lögreglan skaut í gær mann til bana, sem grunaður er um árás á gyðingaverslun í París.

Maðurinn er talinn hafa verið öfgasinnaður íslamisti og er talinn hafa varpað handsprengju inn í matvöruverslun gyðinga í Sarcelles gyðingahverfinu í París í síðasta mánuði. Maðurinn lést í aðgerðum lögreglu í Strasbourg í gær og nokkrum klukkustundum síðar var púðurskotum skotið fyrir utan sýnagógu í París. 

Athöfnum sem marka áttu upphaf sukkot hátíðahalda gyðinga í París var aflýst í gærkvöldi. Hollande sagði í dag að ríkið muni bregðast við af fullum krafti til að berja niður hryðjuverkaógnina. 

Maðurinn sem skotinn var til bana af lögreglu hét Jeremy Louis-Sidney og var 33 ára gamall Frakki sem snerist til íslam. Fingraför hans fundust að sögn lögreglu á sprengjunni sem var varpað. Auk hans voru 11 handteknir í aðgerðum lögreglu í Cannes, Nice og víðar í Frakklandi í gær.

Innanríkisráðherra Frakklands, Manuel Valls, fordæmdi í dag gyðingahatur í íbúðahverfum Frakklands og bætti því við að ógnin „virðist ekki koma frá útlendingum heldur frá Frökkum sem snúist hafa til íslam.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert