„Glæpur gegn mannkyni“

Skotárásin á stúlkuna hefur víða verið fordæmd.
Skotárásin á stúlkuna hefur víða verið fordæmd. AFP

Pakistanska skólastúlkan Malala Yousafzai, sem skotin var í höfuðið af talibönum er enn í lífshættu. Hún liggur alvarlega særð á sjúkrahúsi og er í öndunarvél. Lífslíkur hennar munu ráðast næstu tvo sólarhringana.

Malala, sem er 14 ára, var á leið heim úr skóla síðastliðinn mánudag þegar hún var skotin í höfuðið. Hún vakti heimsathygli fyrir blogg á vef BBC fyrir þremur árum þegar hún lýsti grimmdarverkum talibana í Swat-dalnum  í norðvesturhluta landsins þar sem hún er búsett.

Eftir skotárásina á mánudaginn gáfu talibanar út yfirlýsingu þar sem þeir réttlættu árásina. Þeir  hafa lagt hundruð stúlknaskóla í rúst í Swat-dalnum.

Forsætisráðherra Pakistans, Raja Pervez Ashraf, heimsótti stúlkuna á sjúkrahúsið í gær, ásamt tveimur vinkonum hennar sem einnig særðust í árásinni. 

„Þetta var ekki glæpur gegn einstaklingi, heldur gegn mannkyni. Þetta var árás á þjóðleg og samfélagsleg gildi okkar,“ sagði hann.

Mannréttindasamtök segja að þetta voðaverk ætti að vekja þá til umhugsunar sem sýni talibönum undanlátssemi. Stjórnmálaskýrendur telja að þetta atvik muni ekki valda neinum straumhvörfum í landi, þar sem öfgafullir múslímar hafa fengið að leika lausum hala um áratugaskeið.

Hin 14 ára gamla Malala Yousafzai á sjúkrabörum eftir skotárás …
Hin 14 ára gamla Malala Yousafzai á sjúkrabörum eftir skotárás talibana. AFP
Beðið var fyrir stúlkunni víða í Pakistan í gær.
Beðið var fyrir stúlkunni víða í Pakistan í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert