Gert að hætta sem borgarstjóri

Af vef Toronto-borgar

Dómstóll í Kanada fyrirskipaði í dag að borgarstjóri Toronto, Rob Ford, yrði settur af sem borgarstjóri fyrir að brjóta gegn reglum um hagsmunatengsl þegar hann stóð að því að útvega fótboltafélaginu sínu framlög úr borgarsjóði. Frá þessu greinir AFP-fréttastofan.

Ford lenti upp á kant við lögin þegar hann talaði á borgarráðsfundi í febrúar gegn sekt sem honum var gert að greiða upp á rúma þrjú þúsund dollara vegna siðferðisbrota.

Íbúi í Toronto kærði hann fyrir að brjóta gegn reglum sveitarfélagsins um hagsmunatengsl, sem Ford upplýsti fyrir dómi að hann hefði aldrei lesið.

Svo kann að fara að Ford áfrýi niðurstöðu dómsins í dag eða að hann bjóði sig fram að nýju til borgarstjóra í næstu kosningum. Dómstóllinn frestaði gildistöku dómsins um 14 daga til að gefa borgarkerfinu svigrúm til nauðsynlegra ráðstafana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert