Slík árás væri „brjálæði“

Abdullah Gul, forseti Tyrklands.
Abdullah Gul, forseti Tyrklands. AFP

Abdullah Gul, forseti Tyrklands, segir ólíklegt að nágrannaríkið Sýrland geri árás á Tyrkland. Slík árás væri „brjálæði“. Tyrkir hafa beðið NATO að flytja langdrægar eldflaugar að landamærum sínum að Sýrlandi, en átökin í Sýrlandi hafa nokkrum sinnum borist yfir til Tyrklands.

Gul segir að eldflaugunum yrði komið fyrir eingöngu í varnarskyni og til að minnka líkurnar á því að átökin berist yfir landamærin. NATO hefur ekki svarað beiðninni á formlegan hátt.

Óttast að átökin í Sýrlandi breiðist út

Bæði Rússar og Íranar, helstu bandamenn Sýrlandsstjórnar í alþjóðasamfélaginu, eru afar mótfallnir þessum fyrirætlunum Tyrkja og segjast uggandi um að þær gætu leitt til þess að átökin í Sýrlandi breiðist út.

Fari svo, að NATO samþykki beiðni Tyrkja, verður komið upp allt að sex skotpöllum og 300 manna herlið Þjóðverja eða Hollendinga mun koma á vettvang.

Tyrknesk stjórnvöld hafa verið í viðbragðsstöðu gagnvart Sýrlendingum um nokkurra mánaða skeið og hafa meðal annars flutt ýmis hergögn að landamærunum.

Frá átakasvæðum í Daret Ezza í Sýrlandi.
Frá átakasvæðum í Daret Ezza í Sýrlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert