Þröngvaði sér inn í skólann

Paul Vance, sem stjórnar rannsókninni á skotárásinni í Connecticut, sagði á blaðamannafundi í dag að ódæðismaðurinn hefði þröngvað sér inn í skólann þar sem hann myrti 26 manns.

Vance sagði ekki nákvæmlega hvernig hann hefði komist inn, en honum hefði ekki verið hleypt inn í skólann. Samkvæmt reglum skólans er honum læst eftir að börnin eru komin í hann og fær enginn óviðkomandi að koma þar inn.

Vance sagði að ekki væri enn búið að bera kennsl á ódæðismanninn og ekki væri víst að formleg tilkynning um hver hann væri yrði gefin út fyrr en á morgun eða á mánudag. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum segja að morðinginn sé Adam Lanza, 20 maður frá Newtown.

Vance sagði að lögregla hefði fundið „góðar vísbendingar“ um hvað hefði orðið til þess að morðinginn lét til skarar skríða. Hann sagðist hins vegar ekki geta tjáð sig nánar um það á þessu stigi.

26 létust í skólanum þegar Adam Lanza hóf skothríð, þar af 20 börn. Lanza skaut einnig móður sína stuttu áður en hann lagði af stað í skólann. Vopnin sem hann notaði voru í eigu móðurinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert