Bresk kona dæmd til dauða

Dómstóll í Indónesíu dæmdi í morgun 56 ára gamla breska konu til dauða fyrir fíkniefnasmygl á ferðamannaeynni Balí. Konan, Lindsey Sandiford, var handtekin í maí á síðasta ári á alþjóðaflugvelli eyjarinnar með tæp 5 kíló af kókaíni falið í ferðatösku sinni.

Eftir að upp um Sandiford komst aðstoðaði hún lögreglu við að handtaka þrjá aðra Breta og Indverja í tengslum við málið. Dómurinn kom á óvart samkvæmt frétt AFP enda höfðu saksóknarar farið fram á 15 ára fangelsi og kallað eftir því að tekið yrði vægar á henni þar sem hún hefði gengist við glæpnum.

Haft er hins vegar eftir einum af dómurunum í málinu að aðstæður gæfu ekki tilefni til þess að taka vægar á Sandiford. Öll gögn málsins sýndu fram á sekt hennar. Hámarksrefsing í Indónesíu er dauðarefsing fyrir fíkniefnasölu en 15 ára fangelsi fyrir fíkniefnanotkun en landið er þekkt fyrir að taka hart á slíkum málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert