Vilja íslamistana alfarið frá Malí

Bæjarstjórar og þorpshöfðingjar í norðurhluta Malí hafa flúið svæðið í kjölfar valdaráns íslamista. Þeir segja að íbúar á svæðinu eigi eftir að fagna komu frönsku hermannanna.

Á mánudag tókst frönskum og malískum hermönnum að ná á sitt vald tveimur bæjum í norðri sem undanfarna mánuði hafa verið undir stjórn íslamista með tengsl við al-Qaeda. Bæirnir eru sagðir mjög mikilvægir varðandi framhaldið.

Nú hafa Frakkar aðstoðað malíska herinn í 12 daga í gagnárás á hina herskáu íslamista. Þeir hafa þegar náð mikilvægum samgönguæðum úr höndum skæruliðanna.

Markmiðið er að koma þeim alfarið frá landinu en óttast er að „gráa svæðið“ svokallaða, sem nær yfir svæði í Malí, Alsír og Níger, sé að verða höfuðvígi útlaga sem m.a. tengjast  al-Qaeda.

Forseti Egyptalands er einn þeirra sem er ósáttur við afskipti Frakka.

„Við samþykkjum engan veginn hernaðaríhlutun í Malí því við teljum hana auka átök á svæðinu,“ segir Mohamed Morsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert