Meiri hermaður en prins

Í fyrra var það rassinn sem kom honum í fréttirnar. Í ár eru það þumlarnir. Harry Bretaprins hefur einstakt lag á því að fanga athygli fjölmiðla.

Prinsinn hefur nýlokið 20 vikna herþjónustu í Afganistan. Þar hefur hann gegnt stöðu þyrluflugmanns og m.a. haft yfir vopnum vélarinnar að ráða. Snemma í vikunni var hann spurður hvort hann hefði skotið mann til bana og hann svaraði því játandi. „Já auðvitað, það hafa margir gert,“ sagði prinsinn. „Til að vernda líf þarf að taka líf.“

Prinsinn bætti svo um betur og sagði að reynsla hans af því að spila tölvuleiki í PlayStation og Xbox kæmi að góðum notum á vígvellinum. „Ég með mína þumla, ég held að það komi að góðum notum.“

Harry lét ekki þar við sitja heldur sagði í anda bandarískra bíómynda að þegar einhver gerði eitthvað á hlut „okkar manna“ yrði sá einfaldlega „tekinn út úr leiknum.“

Einhverjum kann að þykja þetta kaldranalegt viðhorf. En það er auðvitað ekkert notalegt við stríð. Það er svo ekki á hverjum degi sem hermenn eru í fréttum að lýsa starfi sínu í Afganistan. Wales kapteinn, eins og Harry er kallaður í hernum, á svo í ofanálag að haga sér eins og prins.

Svo er hann líka að rembast við að fá að vera hann sjálfur.

Hann segist skipta á milli þessara þriggja hlutverka eftir þörfum. Það geti hins vegar verið flókið og hann valdi sjálfum sér stundum vonbrigðum með strákslegri hegðun sinni. „Ég er stundum meiri hermaður en prins.“

Spurður hvort honum liði betur í hlutverki Wales kapteins en Harrys prins svaraði hann mjög hreinskilnislega: „Algjörlega. Mér hefur alltaf liðið þannig. Faðir minn er alltaf að minna mig á hver ég er og annað í þeim dúr. En það er mjög einfalt að gleyma því þegar ég er í hernum. Þar eru allir í eins búningum og að gera það sama.“

Vörn eða kaldlyndi?

En gerði Harry of lítið úr hryllingi stríðsins - eða var stráksleg samlíking hans á leik og stríði aðeins varnarviðbragð við því sem hann hefur þurft að horfa upp á í Afganistan?

„Ef djöfullinn hefur besta taktinn hefur stríð bestu ímyndina,“ skrifar Jonathan Jones dálkahöfundur breska dagblaðsins Guardian. Þrátt fyrir að skelfilegar staðreyndir stríðsátaka hafi verið öllum ljósar í fleiri áratugi, hafi það ekki einu sinni „dældað aðdráttarafl þess á stráka sem vilja verða fullorðnir“.

Jones segir stríðið í Afganistan sönnun þess að stríð hafi vinninginn á staðreyndir. Sú mynd sem Harry prins í hlutverki Wales kapteins hafi dregið upp af átökunum sé í takt við draumóra drengja sem sjái stríð í ævintýraljóma.

Er fjölmiðlamenn fylgdust með Harry í herstöðinni í Afganistan í nóvember mátti sjá prinsinn á harðahlaupum í átt að þyrlunni. Að mati Jones var þessi sena eins og klippt út úr bandarískri kvikmynd. „Munurinn er sá að Harry prins er raunveruleg manneskja, sem er í alvörunni á hlaupum að herþyrlu - og þetta augnablik hefur ekki aðeins glatt almannatengla hersins [...] heldur staðfest trú 11 ára drengja á því að allar þessar hryllilegu sögur í fréttunum segja ekki allan sannleikann. Þeir vita að stríð er spennandi. Og hér er prins sem sannar það.“

Einstök staða bresks prins

Harry hefur hugsanlega fengið skammir frá pabba er hann tengdi tölvuleikjanotkun sína við hermennsku. Í það minnsta var mun alvarlegri tónn í honum er hann steig loks á breska grund á miðvikudag. Hann þakkaði fyrir að vera kominn heim. „Það er auðvitað ekkert eðlilegt við það sem er í gangi þarna,“ sagði hann um aðstæðurnar í Afganistan.

Það er líklega vanmetið hversu mjög svo óvenjuleg hermennska prinsins er og hversu einstakt það er þar að auki að prins bresku krúnunnar lýsi í fjölmiðlum - í miðju stríði - þeirri erfiðu aðstöðu að þurfa að taka ákvörðun um hvort fólk eigi að lifa eða deyja. Sky News fullyrðir að enginn breskur prins hafi verið settur í þær kringumstæður.

Frændi hans sem nú er titlaður hertoginn af York, gaf viðtal á Falklandseyjum árið 1982 en það var eftir að argentínska valdaráninu hafði verið hrundið.

Afi Harrys, Philip prins, barðist í síðari heimsstyrjöldinni en það var áður en hann hóf samband við Elísabetu sem síðar varð drottning.

Tímarnir eru auk þess gjörbreyttir. Í þá daga voru einhverjir úr flestum breskum fjölskyldum í hernum. Í dag er það undantekning frekar en regla.

Olli fjölskyldunni vonbrigðum

Í einu viðtalinu sem Harry fór í í vikunni sagðist hann ekki bera traust til ákveðinna fjölmiðla. Vantraustið ætti rætur að rekja til atvika sem áttu sér stað er hann var barn. Hann sagði svo uppþotið síðastliðið haust, er nektarmyndum af honum var lekið í fjölmiðla, hafa gert illt verra. „Ég olli sjálfum mér vonbrigðum. Ég olli fjölskyldu minni vonbrigðum. En þegar öllu er á botninn hvolft þá var ég á einkasvæði þar sem maður ætti að njóta friðhelgi og næðis að einhverju marki. En þetta er líklega gott dæmi um það að ég hafi hagað mér eins og hermaður og ekki nægilega mikið eins og prins.“

Hann ítrekaði það svo er hann kom til Bretlands á miðvikudag að hann ætlaði að njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum. „Og ykkur er ekki boðið,“ sagði hann við fréttamennina og brosti.

Nektarmyndir og tölvuleikjafrasar eru því mögulega að baki. Harry prins er farinn að svara fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka