30 skotnir til bana á dag í Bandaríkjunum

Árlega særast eða deyja þúsundir þeldökkra Bandaríkjamanna í byssutengdu ofbeldi. Bandarískur almenningur er sá vopnaðasti í heimi, en þar eru yfir 300 milljón byssur í einkaeigu.

Á hverjum þriðjudegi hittist hópur manna á sjúkrahúsi í Washington til að ræða lífið og tilveruna. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa lifað af skotárás, en þótt lífi þeirra hafi verið bjargað breytti byssukúlan því að eilífu því þeir eru allir bundnir hjólastól vegna lömunar.

Einn þeirra er Ismail „Ish“ Watkins. Hann ólst upp í glæpaheiminum og árið 1998 varð hann fyrir skoti vopnaðs ræningja. Ein kúla straukst við höfuð hans og önnur hálsinn og er hann heppinn að hafa sloppið á lífi, en hann segist hafa lært sína lexíu. „Þetta er ekki þess virði. Þú verður að hugsa þig um áður en þú framkvæmir, því þegar það er búið er ekki hægt að sleppa. Það er auðveldara að koma sér í vandræði en úr þeim.“

Fórnarlömbin flest fátækt fólk

Yfir 30 manns eru skotnir til bana að jafnaði á hverjum einasta degi í Bandaríkjunum. Tæpur helmingur þeirra er þeldökkir Bandaríkjamenn sem flestir verða fyrir skoti af hendi annarra svartra landa sinna.

Eftir fjöldamorð líkt og í grunnskólanum í Newtown í vetur, þar sem 20 börn og 6 fullorðnir létu lífið, kviknar iðulega umræðan um herta byssulöggjöf. David Cole, prófessor við lagadeild Georgetown-háskóla, segir þó að fjöldamorðin endurspegli ekki hið raunverulega vandamál við byssueign Bandaríkjamanna.

„Raunveruleikinn er sá að byssuglæpir eiga sér flestir stað inni í borgunum, meðal fátæks fólks og yfirgnæfandi meirihluti fórnarlambanna er ungir karlmenn af afrískum eða suðuramerískum uppruna.“

Árið 2012 voru morð algengasti dauðdagi svartra Bandaríkjamanna á aldrinum 10-24 ára. Síðan fjöldamorðin voru framin í Newtown hafa yfir 2.000 karlar og konur verið skotin til bana, tölfræði sem ber vitni um djúpstæðan vanda bandarísku þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert