Brjálæðingurinn fyrir dóm

Luka Rocco Magnotta
Luka Rocco Magnotta HO

Réttarhöld yfir kanadíska klámmyndaleikaranum og fylgdarsveinum, Luka Rocco Magnotta, sem er ákærður fyrir morð á kínverskum námsmanni, hefjast í Montreal á mánudag. Málið er eitt stærsta sakamálið sem hefur komið upp í Kanada í mörg ár.

Myndaði glæpinn og setti á netið

Luka Rocco Magnotta er sakaður um að hafa stungið hinn 33 ára Lin Jun til bana með ísnál. Einnig að hafa níðst kynferðislega á líki hans, skorið lík hans í sundur og tekið allt saman upp á myndband. Hann sendi svo líkamshlutana í pósti til skóla og skrifstofa stjórnmálaflokka.

Morðið rataði í fréttir víða um heim enda hafði morðinginn myndað glæpinn og birt á netinu. Við réttarhöldin á mánudag verður ákveðið hvort saksóknarar hafa nægileg gögn gegn Magnotta, sem gengur undir heitinu kanadíski brjálæðingurinn“ (e. Canadian psycho) til þess að sækja hann til saka.

Ástæða nafngiftarinnar er sú að á meðan hann hlutar lík Lin niður spilar hann tónlist úr kvikmyndinni American Psycho undir.

Nokkrum dögum eftir morðið fannst búkur Lin í tösku sem hafði verið fleygt í ruslagám. Hendur og fætur bárust stjórnmálaflokkum í pósti í Ottawa og til tveggja skóla í Vancouver. Höfuð fórnarlambsins fannst síðan í almenningsgarði í Montreal mánuði síðar.

Magnotta var leitað út um allan heim en hann var handtekinn þann 4. júní í fyrra í Þýskalandi. Magnotta neitar að hafa framið morðið. Lögmaður hans segir að þeir fari fram á að fjölmiðlar fái ekki að fygljast með réttarhöldunum.

Magnotta á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur.

Magnotta og hinar ýmsu hliðar hans

Að sögn lögreglu var Magnotta vanur að reyna að breyta útliti sínu, meðal annars með því að lita á sér hárið ljóst eða vera með hárkollu. Í einhverjum tilvikum klæddist hann kvenmannsfötum.

Magnotta heitir réttu nafni Eric Clinton Newman, en hann breytti nafni sínu í Magnotta árið 2006. Þá hafði hann gengið undir öðrum nöfnum í talsverðan tíma, svo sem  Vladimír Romanov eða Angel.

Magnotta var þekktur í bloggheimum þar sem hann leitaði eftir nánum kynnum við aðra menn og auglýsti kynlífsþjónustu. Kanadíski brjálæðingurinn var áður yfirlýstur stuðningsmaður skoðana um yfirburði aría og var félagi í Vísindakirkjunni en á sama tíma og hann birti myndskeið af því þegar tveimur kettlingum var drekkt þá birti hann upplýsingar um sig sem áhugamann um strandblak og að hann væri að leita eftir framtíðarsambandi.

Kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Pierre Bonhomme, hefur lýst því þegar hann hitti Magnotta í Toronto annað hvort árið 2007 eða 2008 en þeir höfðu mælt sér mót á stefnumótalínu.

Hann segist hafa forðað sér eftir fimm mínútur þar sem aðstæður hafi verið mjög óþægilegar og Magnotta ógeðfelldur náungi sem tilheyrði heimi samkynhneigðra vændispilta á kafi í dópi. 

Beittur kynferðislegu ofbeldi í æsku

Í skrifum sínum lýsir Magnotta því hvernig hann hafi verið beittur kynferðislegu ofbeldi sem og öðru ofbeldi er hann ólst upp í úthvefi Toronto. Eins að hann hafi átt við bæði áfengis- og fíkniefnavanda að stríða sem og geðræn vandamál. 

Árið 2005 var hann dæmdur fyrir fjársvik og stuld en fékk skilorðsbundinn dóm. Fjölskylda Magnotta býr enn í Toronto en hefur ekkert samband við hann.

Fyrrverandi elskhugi Magnotta, sem er nú trans-vændiskonan Nina Arsenault, segist hafa kynnst Magnotta fyrir um áratug síðan er hann starfaði við nektardans.

Arsenault segir að Magnotta sé ekki heill á geði og ekki sé orð að marka sem hann segi. Magnotta hafi oft grínast með dráp á dýrum. Magnotta hati föður sinn og alla fjölskylduna enda hafi þau aldrei skilið hann.

Lögreglan flutti Luka Rocco Magnotta heim frá Þýskalandi þar sem …
Lögreglan flutti Luka Rocco Magnotta heim frá Þýskalandi þar sem hann var handtekinn í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert