ESB gagnrýnir stjórnarskrárbreytingar í Ungverjalandi

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands. ODD ANDERSEN

Ungverska þingið samþykkti í dag breytingar á stjórnarskrá landsins, en Evrópusambandið gagnrýnir breytingarnar og segja þær vegi að lýðræði í landinu.

Íhaldsflokkur Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands er með 2/3 þingmanna á ungverska þinginu. Stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar með miklum meirihluta, en flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Breytingarnar þrengja að löggjöf um háskólamenntun, að heimilislausu fólki, réttindum fjölskyldna og einnig eru gerðar breytingar sem varða kosningar.

Evrópusambandið hefur lýst því yfir að sumar breytingarnar séu ekki í samræmi við dóma Evrópudómstólsins. Viktor Orban sakaði Evrópusambandið um afskipti af innanríkismálum í Ungverjalandi.

Stjórnarskrárbreytingarnar taka á dómum sem hæstiréttur landsins hefur fellt þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að löggjöf þingsins væri í ósamræmi við stjórnarskrá landsins. Stjórnarskrárbreytingarnar takmarka einnig möguleika réttarins til að hafa afskipti af lögum sem þingið setur í framtíðinni.

Með breytingunum eru settar takmarkanir við því hvað birta má mikið af pólitískum auglýsingum í fjölmiðlum í opinberri eigu fyrir kosningar.

Einnig er í stjórnarskránni sett ákvæði um að háskólastúdentar geti aðeins fengið styrk frá hinu opinbera ef þeir heiti því að starfa í Ungverjalandi eftir útskrift. Þar er einnig að finna ákvæði um að sekta megi eða fangelsa heimilislaust fólk sem sefur á götum úti.

Þetta er í fjórða sinn á 14 mánuðum sem gerðar eru stjórnarskrárbreytingar í Ungverjalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert