Óhugnanleg saga stúlknanna ekkert einsdæmi

Amanda Berry og Georgina DeJesus voru 16 og 14 ára …
Amanda Berry og Georgina DeJesus voru 16 og 14 ára þegar þeim var rænt árið 2003. Ekki hefur verið birt mynd af þriðju stúlkunni sem var með þem í haldi, Michelle Knight.

Frelsun bandarísku kvennanna þriggja, Amöndu Berry, Georgina DeJesus og Michelle Knight, í gærkvöldi eftir 10 ár í haldi mannræningja þykir með miklum ólíkindum, en er því miður ekkert einsdæmi.

Frægastar eru líklega sögur hinna austurrísku Elisabeth Fritzl, sem slapp árið 2008 eftir 24 ár í haldi föður síns og Natöschu Kampusch, sem flýði árið 2006. En þær eru fleiri sögurnar af ungum stúlkum sem sviptar eru frelsinu og kannski eiga einhverjar þeirra enn eftir að heyrast.

Haldið fanginni af hjónum í Kaliforníu

Síðasta mannránsmálið af þessu tagi sem upp kom var einnig í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Kaliforníu, árið 2009. Jaycee Dugard var þá bjargað af lögreglu af heimili hjónanna Phillip og Nancy Garrido sem höfðu haldið stúlkunni fanginni í tæpa tvo áratugi og nauðgað henni ítrekað. 

Dugard var aðeins 11 ára gömul þegar Phillip Garrido rændi henni þegar hún var á leið í skólann í Lake Tahoe í Kaliforníu, í júní 1991. Hann var þá nýsloppinn úr fangelsi á skilorði, eftir að hafa verið dæmdur fyrir nauðgun. Næstu 18 árin var henni ítrekað nauðgað og ól mannræningjanum tvö börn. Garrido hjónin voru dæmd í lífstíðar fangelsi árið 2011.

Fréttaskýring Morgunblaðsins um mál Jaycee Dugard 2009: Breytti barninu í þræl

Josef Fritzl gat 7 börn með dóttur sinni

Í apríl 2008 handtók lögreglan í Austurríki Josef Fritzl, 73 ára gamlan mann í bænum Amstetten sem grunaður var um að hafa haldið dóttur sinni, Elisabeth Fritzl, fanginni í kjallara íbúðarhúss síns í 24 ár.

Upp komst um fangavist Elisabeth, sem var 42 ára þegar hún var frelsuð, í kjölfar þess að leggja þurfti 19 ára gamla dóttur hennar inn á sjúkrahús. Stúlkan bjó með móður sinni í kjallaranum og lítill miði í vasa hennar með skilaboðum frá Elisabeth vakti athygli lækna sem létu lögreglu vita.

Elisabeth Fritzl sagði síðar frá því að faðir hennar hafi beitt hana stöðugu kynferðisofbeldi frá því hún var 11 ára. Árið 1984, þegar hún var 18 ára, lokkaði hann hana niður í kjallara hússins árið 1984, handjárnaði hana þar og læsti inni. Á næstu 24 árum gat hann með henni sjö börn. Þrjú þeirra höfðu aldrei komið út undir bert loft þegar lögreglan frelsaði þau.

Josef Fritzl var dæmdur til ævilangrar vistunar á stofnun fyrir geðsjúka í mars 2009. Fréttaskýring Morgunblaðsins um mál Elisabeth Fritzl árið 2009: Fritzl-fjölskyldan undir yfirborði jarðar

Natascha Kampusch flýði úr haldi Wolfgang Priklopil

Þegar mál Fritzl fjölskyldunnar kom upp var Austurríkismönnum og heiminum öllum enn í fersku minni sambærilegt mál Natöschu Kampusch frá því tveimur árum fyrr. Kampusch var rænt af Wolfgang Priklopil úti á götu þegar hún var 10 ára gömul, árið 1998.

Hann hélt henni fanginni í sérútbúnum 5 fermetra klefa í kjallara húss síns í nágrenni Vínar í átta og hálft ár. Síðar sagðist hún í viðtali hafa beðið allan tímann eftir rétta augnablikinu til að flýja og reynt að ávinna sér traust hans. Tækifærið gafst loksins þegar Priklopil gleymdi sér í símanum einn dag þegar hann var að ryksuga bílinn. Priklopil henti sér í kjölfarið fyrir lest.

Kampusch hefur talað fremur opinskátt um lífsreynslu sína og gaf út ævisögu sína árið 2010. Frétt Morgunblaðsins um mál Natöschu Kampusch árið 2006: „Fannst ég vera sterkari en hann“

Fangar í árum saman á Ítalíu og Japan

Fleiri dæmi eru um ungar konur sem haldið er föngnum árum saman. Árið 2008 var ítölsk  kona að nafni Maria Monaco frelsuð eftir að hafa verið haldið fanginni af fjölskyldu sinni í 18 ár. Lögregla fann hana innilokaða við „hryllilegar aðstæður“ á sveitabæ við Santa Maria Capua Vetere, í nágrenni við Napólí. 

Henni hafði verið haldið fanginni frá árinu 1990, í kjölfar þess að hún varð þunguð 18 ára gömul og neitaði að gefa uppi hver væri faðir barnsins. Bróðir hennar, systir og amma voru handtekinn vegna málsins.

Árið 2000 var 19 ára gömul japönsk stúlka frelsuð úr haldi mannræningja í Kashiwazaki. Maðurinn rændi henni árið 1990 þegar hún var 9 ára gömul og lokaði hana inni á heimili sínu í áratug. Yfirvöld komust á snoðir um hana eftir að móðir mannræningjans kallaði sjúkrabíl að húsinu. Mannræninginn var dæmdur í 14 ára fangelsi árið 2003.

Foreldrar Madeleine McCann vona það besta

Þetta eru þau mál sem komist hafa upp og vakið heimsathygli, en ekki er útilokað að fleiri stúlkur hafi mætt svipuðum örlögum án þess að til þeirra hafi spurst.

Foreldrar bresku stúlkunnar Madeleine McCann, sem hvarf fyrir 6 árum, leita hennar t.a.m. enn. Þau sögðu í dag að mál kvennanna þriggja sem frelsaðar voru í Bandaríkjunum í gær sé enn frekari sönnun þess að börnum sem rænt er sé oft haldið á lífi árum og jafnvel áratugum saman.

„Sú staðreynd að þessar ungu konur fundust styrkir vonina í brjósti okkar um að finna Madeleine. Sú von hefur aldrei horfið,“ sögðu Kate og Gerry McCann í dag. Þau sögðu hug sinn vera með fjölskyldum kvennanna en báðu jafnframt almenning að vera áfram vakandi yfir hvarfi Madeleine.

Mccann fjölskyldan hefur haldið máli Madeilene mjög á lofti og er hvarf hennar því með þeim þekktari síðustu ár. Enn er hins vegar ógetið þúsunda barna, bæði stúlkna og drengja sem hverfa um allan heim á ári hverju án þess að af þeim spyrjist.

Jaycee Dugard var 11 ára þegar hún hvarf árið 1991. …
Jaycee Dugard var 11 ára þegar hún hvarf árið 1991. Hún slapp úr haldi 18 árum síðar, 2009.
Natascha Kampusch var 10 ára gömul árið 1998 þegar tæknimaðurinn …
Natascha Kampusch var 10 ára gömul árið 1998 þegar tæknimaðurinn Wolfgang Priklopil rændi henni er hún var á heimleið úr skólanum. Reuters
Elisabeth Fritzl var haldið fanginni í kjallara föður síns, Josef …
Elisabeth Fritzl var haldið fanginni í kjallara föður síns, Josef Fritzl, í 24 ár.
Madeleine McCann hvarf árið 2007 þegar hún var fjögurra ára …
Madeleine McCann hvarf árið 2007 þegar hún var fjögurra ára gömul. Foreldrar hennar leita hennar enn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert