Fylgst með símtölum Bandaríkjamanna

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. AFP

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur fylgst með símanotkun milljóna Bandaríkjamanna frá því í apríl síðastliðnum en samkvæmt leynilegum dómsúrskurði var símafyrirtækinu Verizon, eitt það stærsta í Bandaríkjunum, gert að afhenda umræddar upplýsingar. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Guardian í dag.

Fram kemur í fréttinni að samkvæmt dómsúrskurðinum, sem Guardian hefur undir höndum, sé Verizon gert að veita NSA upplýsingar daglega um öll símtöl sem fara í gegnum kerfi fyrirtækisins, bæði innanlands og á milli Bandaríkjanna og annarra landa. Skjalið sýni í fyrsta sinn svart á hvítu að upplýsingar um símtöl milljóna bandarískra ríkisborgara hafi í stjórnartíð Baracks Obama Bandaríkjaforseta verið safnað af handahófi í miklum mæli án þess að viðkomandi einstaklingar séu grunaðir um að hafa gerst á nokkurn hátt brotlegir við lög.

Sérstakur dómstóll um eftirlit í tengslum við leyniþjónustumál veitti bandarísku alríkislögreglunni heimild til upplýsingasöfnunarinnar 25. apríl síðastliðinn í þrjár mánuði og nær hún til 19. júlí næstkomandi. Um ótakmarkaða heimild er að ræða samkvæmt fréttinni hvað varðar fjölda símnotenda og símtala en hún nær til þeirra símanúmera sem hringt er úr og hringt er í, staðsetningar þeirra sem eiga aðild að símtölunum, atriða sem einkennir þá, lengdar símtalanna og tímasetningar þeirra. Heimildin nær hins vegar ekki til innihalds samtalanna.

Fram kemur í fréttinni að umfang heimildarinnar þyki í hæsta máta óvenjuleg. Umræddur dómstóll veiti allajafna slíka heimild einungis til þess að fylgjast með ákveðnum nafngreindum einstaklingum sem grunaður er um að vera útsendari hryðjuverkasamtaka eða erlends ríkis eða takmarkaðs fjölda nafngreindra einstaklinga. Þá segir að NSA og aðrar opinberar stofnanir í Bandaríkjunum sem Guardian hafi haft samband við hafi ekki viljað tjá sig um málið.

Frétt Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert