Átök í Ankara

Átök hafa brotist út í Ankara, höfuðborg Tyrklands, á milli mótmælenda og lögreglu, sem beitt hefur táragasi og sprautað vatni á mótmælendur með háþrýstidælum.

Um 5.000 manns kom saman á Kizilay-torgi í miðborg Ankara til að mótmæla stjórnvöldum. Einnig hafa verið mótmæli í dag í Istanbúl og í öðrum borgum landsins.

Undanfarna viku hafa óeirðir brotist víða út í landinu í kjölfar harkalegra aðgerða lögreglu sem reyndi að brjóta mótmæli á bak aftur í Gezi-almenningsgarðinum í Istanbúl, en þar komu saman fólk sem vildi mótmæla fyrirhugðum framkvæmdum.

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hefur verið harðlega gagnrýndur í tengslum vegna viðbragða stjórnvalda. Hann hefur útilokað að kosningum verði flýtt í landinu.

„Maður tekur ekki ákvörðun um að flýta kosningum vegna þess að fólk hefur safnast saman á götum úti,“ sagði Erdogan.

Mótmælendur eru ósáttir við það sem þeir segja vera aukin afskipti stjórnvalda og að þau séu að koma á íslömskum gildum í landinu.

Í Istanbúl komu slíðruðu stuðningsmenn þriggja knattspyrnuliða sverðin og gengu saman að Taksim-torgi til að mótmæla. Þetta voru stuðningsmenn tyrknesku liðanna Fenerbahce, Galatasaray og Besiktas.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðbúnað lögreglu vegna mótmæla í Istanbúl í gærkvöldi og í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert