Komu saman og syrgðu unglingspilt

Óeirðalögregla í Tyrklandi beitti táragasi og sprautaði vatni á tugþúsundir mótmælenda sem safnast höfðu saman í Istanbúl og höfuðborginni Ankara í kvöld. Fólkið hrópaði slagorð gegn ríkisstjórninni og minntist unglingspilts, sem lést í gær eftir að hafa slasast í mótmælaaðgerðum gegn ríkisstjórninni í fyrra.

Pilturinn, hinn 15 ára gamli Berkin Elvan, lést á sjúkrahúsi í gær eftir að hafa legið í dái í 269 daga og var jarðaður í Istanbúl í dag. Hann var sleginn í höfuðið með táragaskúti í júní í fyrra, en þá stóðu yfir mikil mótmæli víða um landið. Elvan var á leið í búð að kaupa brauð er hann var sleginn og er lögregla sögð bera ábyrgðina.

Mótmælendur reyndu að stöðva umferð í Ankara, nokkrir voru handteknir vegna þess og nokkrir slösuðust í átökum við lögreglu. Mótmælendur í Istanbúl kveiktu eld á torgi og gengu fylktu liði að grafreit Elvans.

Dauði hans hefur orðið að sameiningartákni stjórnarandstæðinga í landinu. Móðir hans, Gulsum Elvan, kennir forsætisráðherra landsins, Recep Tayyip Erdogan, um lát sonarins. „Það var ekki guð sem tók son minn frá mér, heldur Erdogan forsætisráðherra,“ sagði hún við blaðamenn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert