Aðstoðaði ekki óvini Bandaríkjanna

Bradley Manning var í dag sýknaður af ákæru um að hafa aðstoðað óvini Bandaríkjanna. Hann var hins vegar fundinn sekur í fimm ákæruatriðum sem varða njósnir. Hann var ennfremur fundinn sekur í fimm ákærum um þjófnað.

Ákæran gegn Manning var í 22 liðum, en hann var í dag fundinn sekur í 20 ákæruatriðum. Við réttarhöldin játaði hann á sig 10 ákæruatriðin, en þau snertu ekki um alvarlegustu ákæruatriðin. Ákæran um að hafa aðstoðað óvini Bandaríkjanna var alvarlegasti liður ákærunnar.

Má búast við langri fangelsisvist

Ekki er búið að taka ákvörðun um hversu langan fangelsisdóm Manning hlýtur, en miðað við að hafa verið fundinn sekur í 20 ákæruatriðum getur hann búst við að fá allt að 130 ára dóm.

Manning var ákærður fyrir að leka meira en 750 þúsund leyniskjölum um hernaðaraðgerðir á vígvöllum í Afganistan og Írak til uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks á árunum 2009 til 2010.

Eftir að hann var handtekinn dvaldi hann í margar vikur í fangelsi í Kúvaít, en var síðan sendur til Bandaríkjanna þar sem hans beið ákæra. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í þrjú ár.

Manning starfaði við öflun og greiningu upplýsinga fyrir herinn í Írak. Hann hlóð gríðarlegu magni skjala niður og kom þeim til WikiLeaks. Við réttarhöldin neitaði hann því að með því að leka þessum upplýsingum hefði hann verið verið að afhenda andstæðingum Bandaríkjanna hernaðarlegar upplýsingar.

Wikileaks hefur aldrei staðfest að Manning hafi verið heimildarmaður síðunnar, en efnið sem lekið var innihélt upplýsingar um hernaðaráætlanir Bandaríkjahers í Írak og innviði utanríkisráðuneytisins og gaf innsýn í aðstæður í stríðinu í Afganistan.

BBC hefur tekið saman nokkur meginatriði sem finna má í þeim gögnum sem Manning kom til WikiLeaks.

Bradley Manning kom fyrir herdómstól í Fort Meade í Marylandríki.
Bradley Manning kom fyrir herdómstól í Fort Meade í Marylandríki. SAUL LOEB
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert