Glæpur gegn mannkyni ef rétt er

Vaxandi alþjóðlegur þrýstingur er á sýrlensk stjórnvöld að hleypa eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna á staðinn þar sem grunur leikur á að efnavopnum hafi verið beitt og valdið dauða hundruða. Atburðarásin er smám saman að skýrast, m.a. með fjölda myndskeiða sem sett hafa verið á netið.

„Hvers kyns notkun efnavopna, af hálfu hvaða aðila sem er og undir öllum kringumstæðum væri brot á alþjóðalögum,“ sagði Ban Ki-moon í Seoul í Suður-Kóreu dag. „Slíkur glæpur gegn mannkyni ætti með réttu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem hann fremur.“

Ban sagði að rannsaka verði ásakanir um notkun efnavopna í útjaðri Damaskus tafarlaust. „Ég get ekki séð neina ástæðu fyrir því að nokkrir aðilar málsins, hvorki stjórnvöld né stjórnarandstæðingar, hafni slíku tækifæri til að fá fram sannleikann.“

Stjórnarandstæðingar segja að yfir þúsund manns hafi látið lífið í árásinni, þar af fjöldi barna. Stjórnvöld hafna því hins vegar með öllu að hafa beitt efnavopnum.

Óhugnanleg myndskeið sett á netið

Fram kemur á vef BBC í dag að æ fleiri sérfræðingar séu að sannfærast um að taugagasi hafi verið beitt í árásinni á miðvikudag. Tugir myndskeiða sem sögð eru sýna afleiðingar efnavopna hafa birst á netinu undanfarinn sólarhring.

Ekki er unnt að staðfesta uppruna eða sannleiksgildi efnisins, en það gefur þó óhugnanlega innsýn í hvað kann að hafa gerst í höfuðborg Sýrlands á miðvikudag, ef rétt er.

Eitt þeirra má sjá hér að neðan og sýnir heilbrigðisstarfsmann reyna að hughreysta unga stúlku. Ekki er ljóst hvort hegðun hennar skýrist af áhrifum efnavopna eða einfaldlega því að hún virðist frávita af hræðslu. Fram kemur á vef Washington Post að það hafi verið tekið örfáum klukkustundum eftir meinta efnavopnaárás.

Fréttaritari BBC, Bridget Kendall, segir að í mörgum kreðsum sé nú áherslan að færast frá því að ræða hvort efnavopnum hafi verið beitt, og yfir í að ræða hvor hliðin beri ábyrgð á árásinni.

Eftirlitsmönnum SÞ enn ekki hleypt á staðinn

Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á það við sýrlensk stjórnvöld að fá að senda teymi vopnaeftirlitsmanna til landsins til að rannsaka málið, en ríkisstjórn Bashar al-Assad hefur ekki gefið til kynna að það verði heimilað.

Eftirlitsmennirnir eru nú þegar í Damaskus en þeir dvelja um 15 km frá árásarstaðnum og hefur þeim ekki verið hleypt þangað enn. Þeir hafa hins vegar heimild til að rannsaka þrjá aðra staði þar sem áður hafa komið fram ásakanir um notkun efnavopna.

Frakkar hafa lýst því yfir að verði notkun efnavopna staðfest verði að bregðast við með því að ráðast inn í Sýrland. Bandaríkjamenn segjast leggja allt kapp á að safna upplýsingum um hvað raunverulega hafa átt sér stað í Damaskus. Á síðasta ári varaði Barack Obama við því að beiting efnavopna í átökunum yrði kornið sem fyllti mælinn.

Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni sýnir syrgjendur skoða lík fólks sem …
Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni sýnir syrgjendur skoða lík fólks sem sagt er hafa látist í efnavopnaárás í Damaskus. AFP
Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni lík fólks sem sagt er hafa …
Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni lík fólks sem sagt er hafa látist í efnavopnaárás í Damaskus. DAYA Al-DEEN
Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni sýnir syrgjendur skoða lík fólks sem …
Ljósmynd frá sýrlensku stjórnarandstöðunni sýnir syrgjendur skoða lík fólks sem sagt er hafa látist í efnavopnaárás í Damaskus. AFP PHOTO / HO / SHAAM NEWS NETWORK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert