Yngsti kóngur heimsins má ekki brosa

Oyo konungur á krýningarafmæli sínu síðustu helgi.
Oyo konungur á krýningarafmæli sínu síðustu helgi. AFP

Hann hefur verið konungur í átján ár. Samt er hann aðeins 21 árs. Oyo kóngur Toro-ríkis í Úganda var aðeins þriggja ára er faðir hans féll frá og hann tók við krúnunni. Hann komst þá á spjöld sögunnar fyrir að vera yngsti kóngur heims og heldur enn þeim titli. Um helgina hélt hann upp á 18 ára krýningarafmæli sitt.

Oyo Nyimba Kabamba Iguru, oftast kallaður Oyo, elskar fótbolta. Hann tekur sér frí frá skyldustörfum til að fylgjast með eftirlætis knattspyrnuliði sínu, Arsenal. En ef Arsenal skorar mark getur hann ekki leyft sér að hoppa um af kæti, fagna með hrópum eða faðma félaga sína. Og ef einhver leikmaðurinn slasast eða brennir af getur hann ekki sýnt vonbrigði sín eins og hver annar aðdáandi liðsins. Skýringin er sú að í Toro, einu fjögurra konungsríkja Úganda, má kóngurinn ekki sýna tilfinningar sínar opinberlega. Hann má ekki brosa eða gráta því slíkt þykir veikleikamerki. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri úttekt um ævi unga kóngsins í útbreiddasta dagblaði Úganda, New Vision.

Kornungur konungur. Oyo var 3 ára er hann fékk valdasprotann.
Kornungur konungur. Oyo var 3 ára er hann fékk valdasprotann.

Allt þetta og miklu fleira þurfti hinn ungi konungur að temja sér er hann tók við konungsríkinu. Hann fæddist 16. apríl árið 1992. Foreldrar hans eru Patrick David Mathew Kaboyo Olimi III. og drottning hans Kemigisa Kaboyo. Er faðir hans féll skyndilega frá árið 1995 varð hinn þriggja ára gamli krónprins, Oyo, að taka við krúnunni í Toro-ríki. Hann varð 14. kóngur ríkisins en það var stofnað fyrir um 180 árum. Áður en faðir hans lést gegndi hann m.a. embætti sendiherra Úganda gagnvart Kúbu, segir m.a. í úttekt dagblaðsins Daily Monitor.

Oyo fékk þrjá aðstoðarmenn til að leiðbeina sér við skyldustörfin og undirbúa hann fyrir leiðtogahlutverkið. Það voru móðir hans, föðursystir og forseti Úganda, Yoweri Museveni. Þeirra hlutverki var ekki lokið fyrr en ungi kóngurinn varð 18 ára. Þá fyrst tók hann við völdum ríkisins að öllu leyti.

Ráðgjafarnir þrír hjálpuðu meðal annars Oyo að semja ræður og kenndu honum að flytja þær. Hann segist þó enn verða stressaður þegar hann þarf að tala opinberlega, þótt hann hafi gert slíkt frá unga aldri.

Æska hans var hlutskiptis hans vegna óvenjuleg. Hann fór ekki út í feluleik með jafnöldrunum og ekki fékk hann heldur að klifra í mangótrjánum líkt og flest börn gera í Úganda. Hann segist stundum hafa þrjóskast við, ekki viljað gera það sem honum bar. Hann hafi t.d. sem barn stundum ekki séð tilganginn í því að fara í skóla. Til hvers?

Mikið var um dýrðir er Oyo varð 18 ára og …
Mikið var um dýrðir er Oyo varð 18 ára og tók við völdum að fullu leyti af ráðgjöfum sínum árið 2010. AFP

Það erfiðasta var þó er hann áttaði sig á því að hann væri kóngur. „Ég var sjö ára þegar ég skildi að þetta var mitt starf og ég yrði að standa mig í því,“ sagði Oyo í viðtali við  New Vision árið 2010. „Ég spurði sjálfan mig: Hvernig get ég orðið góður leiðtogi? Síðan þá hef ég upplifað margt og öll sú reynsla hefur þroskað mig og undirbúið mig fyrir að verða konungur fólksins míns.“

Oyo var ungur sendur í skóla til Bretlands. Hann var síðar í háskóla í Kampala, höfuðborg Úganda, en stundaði einnig háskólanám í Manchester á Englandi. Hann segir að í skólanum hafi hann verið eins og hver annar nemandi. Alla sína ævi hefur hann dreymt um að verða verkfræðingur en af því verður aldrei.

„Mig hefur alltaf langað til að verða verkfræðingur, en þar sem ég er kóngur verð ég að leggja þann draum til hliðar og gera það sem mér ber.“

Oyo vill vita allt sem er að gerast í konungsríki sínu og segir það fara í taugarnar á sér þegar upplýsingum er haldið frá honum. Þó að hann sé ungur sé hann kóngur og eigi að vita um allt. Hann hefur í gegnum tíðina kynnst mörgu kóngafólki frá ýmsum löndum. Hann segist þó alltaf ákveðinn í því að vera hann sjálfur. Það þýði þó ekki að hann hlusti ekki á ráðleggingar annarra.

Oyo dreymdi um að verða verkfræðingur. En hans hlutskipti í …
Oyo dreymdi um að verða verkfræðingur. En hans hlutskipti í lífinu er annað. AFP

Þrátt fyrir ungan aldur tekur Oyo hlutverk sitt sem leiðtoga og verndara þegna sinna alvarlega og hefur m.a. farið fram á það við forseta Úganda og sinn fyrrverandi leiðbeinanda og ráðgjafa, að hann skili þeim eignum Toro-ríkis sem sem ríkisstjórnin tók til sín er konungsríkin voru lögð niður með stjórnarskrárbreytingu árið 1967. Eignirnar sem um ræðir eru m.a. byggingar og jarðir.

Kóngurinn ungi er búinn að ákveða að næstu ár mun hann leggja áherslu á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og skóla í Toro-ríki. Þá ætlar hann sér að stofna viðskiptaráð sem hefur það að markmiði að laða að fjárfesta. Þetta tilkynnti hann m.a. á krýningarafmæli sínu og bað forsetann að aðstoða sig við verkefnið, að því er fram kemur í frétt dagblaðsins Daily Monitor.

Oyo er ákveðinn í því að verða góður leiðtogi. Og þegar hann hefur lokið daglegum skyldustörfum sínum nýtur hann þess að horfa á kvikmyndir, lesa bækur og fylgjast með fótbolta. Rétt eins og hver annar 21 árs karlmaður.

Hér má skoða ítarlega myndasyrpu frá krýningarafmælinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert