Efnavopn á 45 stöðum í Sýrlandi

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Lakhdar Brahimi sendifulltrúi Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi …
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Lakhdar Brahimi sendifulltrúi Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi og Sergey Lavrov utanríksiráðherra Rússlands funduðu í Genf í dag. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja að efnavopn sé að finna á 45 stöðvum í Sýrlandi. Talsmaður bandaríska utanríkisráðsins sagði þetta á fundi Johns Kerry og Sergeis Lavrov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands í dag. Um helmingur þessara er talinn geyma efnavopn í „nýtanlegu magni,“ sagði talsmaðurinn.

Yfirvöld í Frakklandi fagna samkomulagi Bandaríkjanna og Rússlands í málefnum Sýrlands um að útrýma efnavopnum í landinu með friðsamlegum hætti. Frakkar segja samkomulagið til marks um að höggvið hafi verið á hnút í málinu. „Þetta er stórt skref fram á við,“ sagði Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands í samtali við AFP.

Þjóðverjar og Bretar hafa að sama skapi lýst yfir ánægju sinni með samkomulagið.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands sagði á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni bregðast við ef stjórnvöld í Damaskus myndu brjóta gegn alþjóðalögum um efnavopn. „Verði þessari kröfu ekki mætt af Sýrlendingum, eða ef nokkurt ríki beitir efnavopnum, þá mun Öryggisráðið bregðast við í samræmi við sjöunda kafla stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Kaflinn sem Lavrov vísar til veitir Öryggisráðinu heimild til boða hernaðaraðgerðir til að koma aftur á friði á alþjóðasviði og tryggja öryggi í heiminum.

Bardagar geisa enn í Sýrlandi

Þrátt fyrir samkomulagið geisa bardagar enn milli stjórnarhers og uppreisnarmanna í Sýrlandi, nú síðast um bæinn Maalula nærri Damaskus.

Embættismaður stjórnarinnar sagði herinn halda áfram að sækja að bænum. Enn væri að finna „hryðjuverkahópa“ í norðurhluta bæjarins og í hæðunum umhverfis bæinn.

Stjórn Bashars Al-Assads, forseta Sýrlands, hefur ávallt kallað uppreisnarmenn hryðjuverkamenn.Frá því að átökin hófust í mars árið 2011 hafa yfir 110.000 manns látið lífið.

Selim Idriss, hershöfðingi í her uppreisnarmanna í Sýrlandi, segir að uppreisnarmennirnir muni ekki taka þátt í að framfylgja samkomulaginu. Hann segir samkomulagið í raun ekki koma uppreisnarmönnunum við og að þeir muni halda áfram að berjast þangað til stjórnin fellur.

Áætlun um Sýrland samþykkt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert