Uppreisnarmenn andvígir samkomulaginu

„Við getum ekki stutt framlag Rússa og við teljum að rússnesk stjórnvöld og ráðamenn Sýrlands séu með leikrit í gangi til þess að kaupa sér tíma fyrir glæpamennina sem eru við stjórnvölinn í Damaskus.“

Þetta sagði Selim Idriss, hershöfðingi uppreisnarmanna í Sýrlandi, á blaðamannafundi vegna samkomulags Rússa og Bandaríkjamanna um efnavopn sýrlenskra stjórnvalda. en samkvæmt því hefur Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, viku til þess að veita nákvæmar upplýsingar um efnavopnabirgðir sínar. Ennfremur verði Sýrlendingar að veita eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna óheftan aðgang að þeim svo hægt verði að fjarlægja þau og eyða í framhaldinu sem verði í síðasta lagi um mitt næsta ár.

„Við teljum að vinir okkar á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum geri sér vel grein fyrir meginmarkmiði rússneskra stjórnvalda. Þau eru að reyna að finna lausn fyrir ráðamenn í Damaskus,“ sagði Idriss ennfremur. Hann sagði uppreisnarmenn telja að þegar vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna kæmu til landsins myndu stjórnvöld segja þeim að þeir yrðu að halda kyrru fyrir á hótelum sínum og gætu ekki farið til þessa eða hins héraðsins af öryggisástæðum. Uppreisnarmenn óttuðust að það gæti tekið mjög langan tíma að eyða efnavopnum sýrlenskra stjórnvalda og mun lengri en aðeins fram á mitt næsta ár.

Þá kröfðust uppreisnarmenn þess í dag samkvæmt AFP að alþjóðasamfélagið kæmi í veg fyrir að sýrlensk stjórnvöld gætu notað flugher sinn og eldflaugar gegn þeim til viðbótar við aðgerðir til þess að koma í veg fyrir notkun stjórnarinnar á efnavopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert