Parið leitt fyrir dómara í dag

Stúlkan er talin fjögurra ára og er kölluð Maria.
Stúlkan er talin fjögurra ára og er kölluð Maria. AFP

Parið sem litla, ljóshærða stúlkan fannst hjá á Grikklandi í síðustu viku, mætir fyrir dómara í dag. Þau eru grunuð um að hafa rænt stúlkunni. Hugsanlegt er að þeim verði birt ákæra í dag. Enn er líffræðilegra foreldra stúlkunnar leitað en parið heldur því fram að móðirin hafi gefið þeim barnið.

Stúlkan fannst í hverfi róma-fólks í landinu. DNA-próf sýndi að hún var óskyld parinu sem hún bjó hjá og grunur vaknaði um að þau hefðu rænt henni.

Konan er 40 ára og karlinn 39 ára. Hjá þeim voru skráð 14 börn en ekki er vitað hvar tíu þeirra eru niðurkomin. Þau gátu hins vegar ekki sýnt neina pappíra um litlu stúlkuna.

Róma-fólk sætir víða fordómum. Forseti samtaka róma-fólks á svæðinu þar sem stúlkan fannst, vonar að málið eigi ekki eftir að auka enn á fordómana í þeirra garð, segir hann í samtali við Sky-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert