Flutt í fanganýlendu í Síberíu

Nadezhda Tolokonnikova var vistuð í fanganýlendu nr. 14 í Mordóvíu …
Nadezhda Tolokonnikova var vistuð í fanganýlendu nr. 14 í Mordóvíu en talið er að nú sé verið að flytja hana í nýlendu nr. 50 í Síberíu. AFP

Rússnesk stjórnvöld segja að enn verið sé að flytja Nadezhda Tolokonnikova, liðskonu Pussy Riot, milli fangelsa. Talið er líklegt að áfangastaðurinn sé fanganýlenda í Síberíu. Fjölskylda hennar hefur ekkert heyrt frá henni í tvær vikur og fær ekki að vita hvar hún er né hvert hún verður flutt.

Eiginmanni Tolokonnikova var tilkynnt þann 21. október að hún yrði flutt úr fangelsinu í Mordóvíu, tæpum 500 km frá Moskvu. Þremur dögum síðar sást hún um borð í lest í borginni Chelibinsk í Úralfjöllum.

Þrælkun og hótanir í fangelsinu

Fangelsisyfirvöld hafa neitað að gefa uppi hvert hún verður flutt en eiginmaður hennar, Pyotr Verzilov, sagðist í samtali við rússneska fjölmiðla í gær telja að hún verði flutt á fanganýlendu nr. 50 í Krasnoyarsk í vesturhluta Síberíu. Það er í ríflega 4000 km fjarlægð frá Moskvu.

„Í stuttu máli þá er hún flutt 4.500 km leið frá miðju Rússlands inn í miðja Síberíu í refsingarskyni fyrir bréfaskriftir,“ sagði Verzilov.

Í september kom Tolonnikova bréfi til fjölmiðla þar sem hún lýsti skelfilegum aðbúnaði og þrælkun í fanganýlendu nr. 14 í Mordóvíu. Þá sagði hún yfirvöld í fangelsinu hafa hótað að drepa hana.

Ekki flutt með öðrum föngum

Breska blaðið Telegraph hefur eftir Vladimir Lukin, umboðsmanni mannréttinda í Rússlandi, að hann hafi farð fram á skýringar frá fangelsisyfirvöldum.

„Að beiðni fjölda mannréttindafrömuða hafði ég samband við stjórn fangelsismála og spurðist fyrir um örlög Tolokonnikova. Mér var sagt að það væri í lagi með hana, að hún sé enn á ferðinni, í flutningi á nýjan dvalarstað þar sem hún mun ljúka fangelsisvist sinni.“

Af öryggisástæðum er Tolokonnikova flutt ein síns liðs, ekki með öðrum föngum, og í fylgd læknis, að sögn Lukin.

Tolonnikova var dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir aðild hennar að pönkmessu sem hún flutti í kirkju í Moskvu ásamt stallsystrum sínum í Pussy Riot, í febrúar 2012 þegar Vladimír Pútín var í framboði til forseta. Hún hefur nú setið af sér tæplega hálfan dóminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert