Nigella mætt í dómshúsið

Nigella Lawson, sjónvarpskokkurinn frægi, er mætt í dómshúsið í London þar sem fjársvikamál hennar og fyrrverandi eiginmannsins Charles Saatchi gegn tveimur aðstoðarkonum þeirra, er tekið fyrir. Nigella mun gefa vitnisburð sinn í málinu í dag. 

Aðstoðarkonurnar eru sakaðar um að hafa nýtt kreditkort hjónanna til einkanota. Við flutning málsins hefur m.a. komið fram að þær segja að Nigella hafi notað fíkniefni daglega í fleiri ár, m.a. kókaín. Talið er víst að Nigella verði spurð út í meinta fíkn sína í dag en hún hefur hingað til ekki tjáð sig um þær ásakanir.

Í tölvupósti sem eiginmaðurinn fyrrverandi sendi Nigellu og hefur verið lesinn upp við réttarhöldin sagði hann m.a. að Nigella hefði verið svo uppdópuð að hún hafi ekki tekið eftir misnotkun aðstoðarkvennanna. Hann taldi víst að þær myndu nota þetta sem vörn í sínu máli, sem þær hafa gert.

Saatchi sagði við réttarhöldin í síðustu viku að hann hefði aldrei séð Nigellu neyta fíkniefna og ekkert benti til þess að hún hefði gert það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert