Þykir sláandi líkur Mandela

Ayanda Mbatyothi, sem þykir sláandi líkur Nelson Mandela á sínum yngri árum, heitir því að halda arfleifð frelsishetjunnar á lofti. Tvífarinn hefur atvinnu af því að líkjast Mandela.

Mbatyoth er 37 ára. Hann var uppalinn í mikilli fátækt í austurhluta Suður-Afríku. Hann þykir líkjast mjög Mandela eins og hann leit út árið 1962 er hann var handtekinn og fangelsaður næstu 27 árin. 

Mbatyothi þykir meira að segja hafa svipaða rödd og Mandela. Hann segir frelsishetjuna hafa verið mikinn mannvin. „Ég mun reyna mitt besta við að fylgja þeirri hugsjón,“ segir hann. 

Hann segist oft verða var við það að ókunnugir stari á sig. Þá hafi Mandela sjálfum brugðið við að sjá hann. 

Þeir hittust fyrst í kosningabaráttu Mandela á tíunda áratugnum. „Ó, svo þú ert tvíburabróðir minn,“ segist Mbatyothi hafa sagt við Mandela. „Hann snéri sér að mér og sagði: „Guð minn góður“ og fór svo að hlæja.“

Mbatyothi hefur oft komið fram í hlutverki Mandela, m.a. í kvikmyndum og heimildarmyndum.

„Ég hugsa, núna þegar Mandela er farinn, þá vitum við ekki í hvaða átt þetta land stefnir,“ segir hann. „En ég mun ávallt helga líf mitt því að reyna að vera meira eins og hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert