Sködduðu kynfæri 3-15 ára stúlkna

Um 15% allra kvenna og stúlkna í Tansaníu eru umskornar.
Um 15% allra kvenna og stúlkna í Tansaníu eru umskornar. AFP

Lögreglan í Tansaníu hefur handtekið 38 konur fyrir að umskera hóp stúlkna á aldrinum 3-15 ára. Þessar hrottalegu skurðaðgerðir eru ólöglegar í landinu. 

Konurnar voru handteknar á sunnudag er þær voru að dansa í kringum hús. Í húsinu var 21 stúlka, á aldrinum 3-15 ára, sem höfðu augljóslega nýlega verið umskornar, þ.e. kynfæri þeirra sködduð með skurðaðgerð. 

„Um leið og ég heyrði af þessu sendi ég lögregluna á vettvang,“ segir borgarstjórinn í Same í norðurhluta Tansaníu.

Hann segir að enn hafi blætt úr sárum sumra stúlknanna en sár annarra voru farin að gróa.

Umskurður er enn framkvæmdur á stúlkum sumsstaðar í Tansaníu. Slíkar aðgerðir hafa þó verið bannaðar með lögum allt frá árinu 1998.

Rannsóknir benda til þess að 15% allra kvenna og stúlkna í landinu séu umskornar en í aðgerðinni er snípur þeirra m.a. fjarlægður.

Aðgerðin er yfirleitt framkvæmd með hnífi eða rakvélarblaði og án allra deyfinga. Sé fólk dæmt fyrir að framkvæmda umskurð getur það átt yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm.

Sumsstaðar í Tansaníu er konum sem ekki hafa verið umskornar útskúfað. Þá halda margir því fram að umskorin kona sé líklegri til að vera trú eiginmanni sínum.

Aðgerðirnar eru framkvæmdar við mjög frumstæðar aðstæður og gríðarleg sýkingarhætta skapast. Stúlkur deyja oft í kjölfar slíkra aðgerða vegna sýkinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert