Óþarfi að hleypa Gylfa í þessar stöður

Höskuldur Gunnlaugsson í baráttu við Patrick Pedersen á Kópavogsvelli í …
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttu við Patrick Pedersen á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta voru sannarlega dýr stig og vont að sjá á eftir þeim,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, eftir ósigurinn gegn Val, 3:2, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Það er erfitt að lenda tvisvar tveimur mörkum undir, fá á sig þrjú mörk og ætla að vinna það upp. Það er hægara sagt en gert.

Mér fannst við vera að reyna allan tímann, við höfðum trú á þessu allan tímann. Við skoruðum annað markið og settum mikla pressu á þá. En Valur er lið sem getur varist vel, þegar þeir voru níu inn í vítateignum og með Frederik fyrr aftan þá var erfitt að finna einhver gegnumbrot og komast í færi.

Þú sleppur ekkert í gegn þegar mótherjarnir eru með svona marga á bak við boltann. Mér fannst við svo sem gera þetta ágætlega, komum mönnum í einn á einn stöður og komum boltanum inn í teig en þar vantaði að reka smiðshöggið á verkið,“ sagði Höskuldur við mbl.is.

Var ekki vendipunkturinn í þessu að þeir skyldu skora sitt þriðja mark, strax eftir að þeir misstu mann af velli?

„Jú, það var vont að fá þetta þriðja mark á þeim tíma, það var kjaftshögg og það tók okkur smátíma að hrista það af okkur aftur. Við skoruðum reyndar annað markið okkar ekkert svo löngu síðar, og höfðum næstum hálftíma til að jafna, en við gerðum sjálfum okkur full erfitt fyrir.

Það var óþarfi að hleypa Gylfa í þessar stöður sem hann komst í og hann nýtti þær heldur betur vel. Það átti svo sem ekkert að komast á óvart, hann er yfirburðaleikmaður,“ sagði Höskuldur.

Eftir þessi úrslit, hvað þurfið þið helst að bæta?

„Við vorum kannski dálítið ólíkir sjálfum okkur að því leyti að við vorum full slitróttir stundum þegar þeir komu með áhlaup á okkur. Mér fannst við líka stundum vera full mikið að flýta okkur. En það var heilmikill karakter í okkar leik, þetta var ekkert andleysi eða neitt slíkt. Þess vegna hefur maður ekki alltof miklar áhyggjur. Við þurfum aðeins að stilla strengina betur.“

En er ekki vont að vera þegar búnir að tapa sex stigum til Víkings og Vals, liðanna sem ættu að vera ykkar skæðustu keppinautar?

„Jú, vissulega, það er rétt, en þetta er langt mót og það þýðir ekkert fyrir okkur að horfa of mikið á það. Aðrir leikir gefa líka þrjú stig, en maður vill vinna alla leiki, sérstaklega hérna á Kópavogsvelli,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert