Tíu Valsmenn héldu út, tvö mörk frá Gylfa í Kópavogi

Valsmenn fagna marki Gylfa Þórs Sigurðssonar á Kópavogsvelli í kvöld.
Valsmenn fagna marki Gylfa Þórs Sigurðssonar á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn lögðu Breiðablik að velli, 3:2, í lokaleik fimmtu umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld þar sem Blikar voru manni fleiri nær allan síðari hálfleikinn.

Valsmenn eru þá komnir upp í sjötta sætið með átta stig og hafa lagað stöðu sína talsvert. Blikar eru áfram með níu stig og eru í fjórða sæti eftir fimm umferðir.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvö marka Vals og Patrick Pedersen eitt en Kristinn Jónsson og Aron Bjarnason skoruðu fyrir Blika.

Fyrri hálfleikurinn var bæði fjörugur og vel spilaður, sérstaklega af hálfu Valsmanna eftir því sem leið á hann.

Bæði lið áttu nokkrar hættulegar sóknir og hálffæri á fyrstu tíu mínútunum en á 13. mínútu átti Patrick Pedersen bylmingsskot í þverslána á Blikamarkinu.

Þremur mínútum síðar þurfti Frederik Schram í marki Vals að grípa til sparihanskanna þegar hann varði skot Arnórs Gauta Jónssonar í horn.

Valsmenn hertu tökin þegar leið á hálfleikinn og á 28. mínútu dró til tíðinda. Gylfi Þór Sigurðsson átti hörkuskot með vinstri fæti í þverslána og út af 25 metra færi. Patrick Pedersen var fyrstur að átta sig og þrumaði boltanum upp undir þverslána, 1:0 fyrir Val.

Aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2:0. Aron Jóhannsson slapp inn í vítateiginn hægra megin og sendi til hliðar, í varnarmann. Boltinn hrökk af honum en Gylfi var snöggur til og hamraði hann í markhornið nær, með viðkomu í varnarmanni.

Staðan var orðin heldur betur vænleg fyrir Valsmenn en Blikar voru fljótir að svara. Á 36. mínútu minnkaði Kristinn Jónsson muninn í 2:1 með föstu hægrifótarskoti úr miðjum vítateig eftir að Benjamin Stokke potaði boltanum út til hans.

Engu munaði að Patrick skoraði sitt annað mark á 41. mínútu þegar hann fékk glæsilega sendingu frá Adam Ægi Pálssyni en Anton Ari Einarsson náði að verja skotið í horn. Staðan var því 2:1 í hálfleik, Valsmönnum í vil, líkast til eftir bestu 45 mínútur Íslandsmótsins til þessa.

Tvö rauð spjöld á Val

Atburðarásin á 50. mínútu leiksins var síðan með ólíkindum. Valsmaðurinn Adam Ægir Pálsson fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða í kjölfar þess að hann sparkaði aukabolta inn á völlinn þegar Blikar voru að taka innkast.

Ekki nóg með það, þetta fór í skapið á Arnari Grétarssyni þjálfara Vals og Erlendur Eiríksson dómari sýndi honum líka rauða spjaldið.

En á 52. mínútu fékk Valur aukaspyrnu 25 metra frá marki og Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr henni, yfir vegginn og í vinstra hornið, 3:1 fyrir Val.

Blikar komust aftur inn í leikinn á 67. mínútu. Ísak Snær Þorvaldsson áti þá hörkuskot sem Frederik Schram varði glæsilega en Aron Bjarnason fylgdi á eftir og skoraði með föstu skoti, 3:2.

Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk sannkallað dauðafæri til að gera endanlega út um leikinn á 88. mínútu þegar hann slapp aleinn upp að marki Blika. En honum tókst ekki að komast framhjá Antoni Ara Einarssyni sem hirti boltann af honum.

Blikar sóttu linnulítið á lokakafla leiksins og fengu margar hornspyrnur en Valsmenn héldu út og innbyrtu dýrmætan sigur.

Breiðablik 2:3 Valur opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu Að lokum dæmd rangstaða á Blika
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert