Gæðin í skotunum gerðu út um leikinn

Gylfi Þór Sigurðsson og Kristinn Steindórsson eigast við á Kópavogsvelli …
Gylfi Þór Sigurðsson og Kristinn Steindórsson eigast við á Kópavogsvelli í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við ráða ágætlega við þá en mér fannst gæðin í skotunum þeirra gera út um leikinn,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir ósigurinn gegn Val, 3:2, í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Gylfi átti frábært skot í þverslána og Patrick enn þá betra skot í frákastinu. Við vorum óheppnir þegar skot frá Gylfa breytti stefnu af varnarmanni hjá okkur, og síðan kom aukaspyrna frá honum.

Þetta voru sénsarnir þeirra, við vissum að þeir væru með góða skotmenn og það var dýrt að gefa þeim ódýrar aukaspyrnur og skotfæri fyrir utan vítateig. Við vissum að þarna væru þeir hættulegir og það er maður mest svekktur með,“ sagði Halldór þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

„Það hefði verið sterkt að vinna í kvöld en við erum eftir sem áður í ágætri stöðu. Á morgun er nýr dagur og leikur fram undan í næstu umferð. Við verðum bara að halda áfram að safna stigum og bæta okkur í hverjum leik. Þessi úrslit gera ekki annað en að efla okkur í að verða enn betri og halda áfram.“

Tap Víkinga í gærkvöld sýnir væntanlega að það getur allt gerst í þessari deild?

„Já, að sjálfsögðu. Þetta er hörkudeild, öll liðin eru sterk og þú vinnur engan leik fyrir fram. Liðin eiga eftir að tapa stigum hér og þar, það eru bara búnar fimm umferðir og 22 eftir þannig að við örvæntum ekkert. Aðalmálið er að safna stigum áfram og sjá hvort við getum ekki verið við toppinn þegar líður á mótið,“ sagði Halldór Árnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert