Engdist um af sársauka

Dennis McGuire var tekinn af lífi 16. janúar.
Dennis McGuire var tekinn af lífi 16. janúar. AFP

Fjölskylda Dennis McGuire, sem tekinn var af lífi með banvænni sprautu í síðustu viku, hefur höfðað mál á hendur Ohio-ríki og lyfjafyrirtæki sem framleiðir lyfið. Þau segja að McGuire hafi orðið fórnarlamb „grimmilegrar og óeðlilegrar refsingar“ þar sem hann hafi engst um af sársauka í aftökunni sem tók næstum því hálfa klukkustund.

Aftakan fór fram 16. janúar. Sjónarvottar segja að McGuire hafi barist um og reynt að ná andanum í að minnsta kosti tíu mínútur eftir að lyfinu var sprautað í líkama hans. Nú í vikunni var annar fangi tekinn af lífi með sama lyfi í Oklahoma. Fyrsti fanginn sem tekinn var af lífi með þessari lyfjablöndu var Michael Lee Wilson snemma í janúar. Hann sagðist finna „allan líkama sinn brenna“ er lyfinu hafði verið sprautað í hann. 

Nú er þess krafist í Ohio að frekari aftökum verði frestað þar til málið hafi verið skoðað ofan í kjölinn.

Í frétt USA Today segir að málsókn fjölskyldunnar beinist m.a. að fangelsismálayfirvöld og Hospira, lyfjafyrirtæki í Illinois-ríki sem framleiði lyfið sem notað var við aftökuna.

Lögmaður sem fer með málið segir að það snúist m.a. um brot á áttundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar um grimmilega og óeðlilega refsingu.

„Að taka manneskju af lífi með blöndu lyfja sem hefur ekki verið prófað að fullu og getur valdið gríðarlegum sársauka í 25 mínútur telst grimmileg og óeðlileg refsins,“ segir m.a. í greinargerð fjölskyldunnar með kærunni. „Að drepa mann af þeirri vanvirðingu sem gert var, fyrir framan fjölskyldu hans og annarra sjónarvotta, jafnast á við grimmilega og óeðlilega refsingu.“

Í fréttaskýringu AP-fréttastofunnar um málið segir að aftakan hafi tekið 26 mínútur. Aftaka hafi ekki tekið jafnlangan tíma frá því að dauðarefsing var tekin upp að nýju í Ohio árið 1999.

Dennis McGuire var dæmdur til dauða árið 1989 fyrir að nauðga og myrða 22 ára gamla konu, Joy Stewart. 

 Sjá ítarlega frétt USA Today um málið hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert