Ebóla-veiran breiðist út og veldur ugg

AFP

Að undanförnu hafa tugir manns í Vestur-Afríkuríkjunum Gíneu og Líberíu látist af völdum ebóla-veirunnar illræmdu. Veiran hefur blossað upp með hléum í Austur-Afríku undanfarna áratugi, en hefur ekki áður greinst í vesturhluta álfunnar. Óttast var að kanadískur ferðamaður, sem nýverið var á ferð um Líberíu, hefði sýkst af veirunni. Svo reyndist ekki vera, en þessi aukna útbreiðsla vekur upp ýmsar spurningar um hvort hætta sé á að veiran breiðist enn frekar út, ekki síst í ljósi þess að sífellt fleiri Evrópubúar leggja leið sína á þessar slóðir.

Að minnsta kosti 86 hafa greinst og 59 látist af völdum veirunnar undanfarið í Gíneu og fimm hafa látist í Líberíu. Í gær bárust þær fregnir frá Síerra Leóne, sem á landamæri að Gíneu og Líberíu, að grunur væri um að veiran hefði borist þangað.

Walter Gwenigale, heilbrigðisráðherra Líberíu, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem staðfest var að fimm hefðu látist og að sá sjötti hefði sýkst. Talsmaður samtakanna Læknar án landamæra sagði við fréttamann AFP-fréttastofunnar í gær að þeir Líberíumenn sem sýkst hefðu hefðu verið á ferð á þeim svæðum í Gíneu þar sem flest ebóla-tilvik hafa greinst.

Fulltrúar heilbrigðisyfirvalda í Gíneu áttu fund með WHO, heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, um helgina þar sem staða mála var rædd. Á vefsíðu WHO segir að eftir þann fund hafi verið skipulögð vinna við að hefta útbreiðslu og að almenningur í Gíneu hafi verið hvattur til að tilkynna öll þau sjúkdómseinkenni sem gætu bent til sýkingar af veirunni. Á vefsíðunni segir ennfremur að engin ástæða sé til, að svo komnu máli, að takmarka ferðalög til þessa heimshluta vegna þessa.

Dularfullur sjúkdómur

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis, segir að ebóla-veiran valdi blæðandi veiruhitasótt. Aðrir sjúkdómar sem teljast til slíkra sótta eru gulusótt, beinbrunasótt og marburg-vírus. „Ebóla-veirunni fylgir afar há dánartíðni. Þetta er nokkuð dularfullur sjúkdómur sem berst með snertismiti og meðgöngutíminn getur verið allt að þrjár vikur áður en menn veikjast.“

Að sögn Haraldar er ekki vitað til þess að neinn Íslendingur hafi nokkru sinni smitast af veirunni. Með auknum ferðalögum Íslendinga á þær slóðir þar sem veiran hefur greinst, aukist þó vissulega alltaf líkurnar á slíku. „Við erum alltaf nokkuð á varðbergi þegar fólk kemur veikt frá þessum svæðum. Þá gæti það auðvitað verið með þennan sjúkdóm. Veiran hefur í gegnum tíðina komið upp víða í Vestur-Evrópu, m.a. í Bretlandi og Þýskalandi.“

Forvarnir skipta öllu máli

Fregnir af ebóla-faröldrum koma í fjölmiðlum af og til, en þeir virðast takmarkast við afmörkuð landsvæði. „Menn hafa haft áhyggjur af því í mörg ár að veiran breiðist út,“ segir Haraldur. „En það hefur alltaf tekist að hamla útbreiðslunni, aðallega með því að

einangra fólk og meðhöndla lík þeirra sem hafa látist úr sjúkdómnum þannig að þau smiti ekki. Þar sem engin lækning er til þá skipta forvarnir og viðbrögð öllu máli.“

Sameindahákarlinn skæði

Ebóla-veiran greindist fyrst í Austur-Kongó árið 1976. Síðan þá hafa orðið átta ebóla-faraldrar í landinu, sá síðasti var 2012 og þá létust á fjórða tug manna. Einnig hefur veiran breiðst út í Austur-Afríkuríkjunum Úganda, Vestur-Kongó og Gabon og um 2.000 hafa látist af völdum hennar. Veiran smitast með blóði og líkamsvessum og ekkert bóluefni er til gegn henni. Tölur um hlutfall þeirra sem látast af völdum hennar eru nokkuð mismunandi, en yfirleitt er talað um að 2/3 þeirra sem sýkist af veirunni látist innan nokkurra daga.

Ebóla-veiran hefur verið nefnd sameindahákarlinn og er þar vísað til þess að hún ræðst á líkamann með miklu offorsi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka