Gagnrýna stjórnvöld í Sýrlandi

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. MARK GARTEN

Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndu í dag harðlega þá ákvörðun sýrlenskra ráðamanna að boða til forsetakosninga í Sýrlandi þann 3. júní næstkomandi í skugga mannskæðrar borgarastyrjaldar.

Stephane Dujarric, talsmaður Sameinuðu þjóðanna, sagði við fjölmiðla í dag að bæði Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Lakhdar Brahimi, sem er erindreki samtakanna í landinu, hefðu varað við því að boðað yrði til kosninga á þessari stundu. 

Þeir segja að kosningarnar muni valda pólitískri upplausn og koma í veg fyrir að lausn finnist á því ófremdarástandi sem ríkir í landinu, að sögn Dujarric.

Hann bætti því jafnframt við að slíkar kosningar myndu ekki samrýmast Genfarsáttmálanum, eftir því sem fram kemur í frétt AFP um málið.

Að minnsta kosti 150 þúsund manns hafa fallið frá því borgarastyrjöldin braust út í marsmánuði árið 2011.

„Forsetakosningar í Sýrlandi munu fara fram 3. júní á milli kl. 7 að morgni til sjö að kvöldi,“ sagði forseti þingsins, Mohammad al-Lahham, á sérstökum þingfundi fyrr í dag.

Stjórnarandstæðingar í landinu hafa einnig fordæmt ákvörðunina og segja hana vera farsa. Alþjóðasamfélagið ætti ekki að virða kosningarnar að vettugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert