Forseti Sýrlands fær mótframboð

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. -

Útlit er fyrir að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, fái mótframboð í forsetakosningunum sem boðaðar hafa verið í landinu þann 3. júní næstkomandi. Sýrlenski þingmaðurinn Maher Abdel Hafiz Hajjar hyggst bjóða sig fram á móti honum.

Kosningarnar verða haldnar í skugga mannskæðrar borgarastyrjaldar. Að minnsta kosti 150 þúsund manns hafa fallið frá því að styrjöldin braust út í marsmánuði árið 2011.

Hingað til hefur aðeins einn verið í framboði í forsetakosningunum en ný kosningalög gera það að verkum að fleiri mega vera í kjöri.

Stjórnmálaskýrendur reikna með að Assad beri öruggan sigur úr býtum. Hann hefur setið á forsetastólnum frá því árið 2000, en þá tók hann við af föður sínum, Hafez al-Assad.

Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að boða til kosninganna á þessari stundu. Þeir ætla margir að sniðganga þær. 

Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar jafnframt gagnrýnt kosningarnar. Samtökin segja að þær muni valda pólitískri upplausn og koma í veg fyrir að lausn finnist á því ófremdarástandi sem ríkir í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert