Þjóðarframleiðslan aukin með vændi og eiturlyfjum

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu mynd/AFP

Hagstofa Ítalíu, Istat, mun héðan í frá nota tölur af svörtum markaði við útreikning þjóðarframleiðslu landsins. Með þeirri breytingu ætti verg þjóðarframleiðsla Ítalíu að hækka um 1,3% og þar með mun Ítalía ná markmiðum Evrópusambandsins um skuldahlutfall þjóða. 

Reglur Evrópusambandsins banna þjóðum að eyða meira en 3% af þjóðarframleiðslu. Á þessu ári reiknar ríkisstjórnin með því að eyða um 2,6% af þjóðarframleiðslu en með breytingunum á útreikningunum mun skapast svigrúm til þess að auka útgjöld.

Að sögn Istat munu útreikningarnir meðal annars innihalda tölur um smygl á áfengi og tóbaki. Stofnunin bætir því þó við að slíkir útreikningar muni reynast afar flóknir enda erfitt að leggja mat á stærð ólöglegra og óskráðra viðskipta. Svarta hagkerfið á Ítalíu er talið vera mun stærra heldur en í flestum öðrum Evrópulöndum. Samkvæmt tölum ítalska seðlabankans var stærð þess árið 2012 um 10,9% af vergri þjóðarframleiðslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert