Aftökuteymið algörlega vanhæft

Clayton Lockett lést eftir 43 mínútna dauðastríð.
Clayton Lockett lést eftir 43 mínútna dauðastríð.

Krufning sem unnin var af óháðum aðilum, á líki fanga sem lést eftir misheppnaða aftöku, leiddi í ljós að læknateyminu sem sprautaði í hann eitrinu misheppnaðist ítrekað að setja upp æðalegg og götuðu æðina.

Clayton Lockett var dæmdur til dauða fyrir morð og nauðgun. Aftakan fór fram 29. apríl og var notuð til þess ný þriggja lyfja blanda sem ekki höfðu verið gerðar tilraunir á fyrirfram. Dauðastríðið tók 43 mínútum, sem er langt umfram það sem búist var við en yfirleitt deyja fangar á um 10 mínútum eftir eitursprautu.

Krufning staðfestir ekki hjartaáfall

Lockett er sagður hafa engst um af sársauka og orðaði lögmaður hans það þannig að hann hafi verið pyntaður til dauða. Fangelsisyfirvöld sögðu að dánarorsök hefði á endanum verið hjartaáfall.

Réttarmeinafræðingurinn Joseph Cohen, sem hefur nú lokið óháðri krufningu á líki Lockett utan fangelsismúranna, segist hinsvegar ekki hafa fundið neina staðfestingu þess efnis að Lockett hefði dáið úr hjartaáfalli.

Hann rannsakaði m.a. stungusár og marbletti á handleggjum og fótleggjum Locketts sem og við slagæðina í lærleggnum og segir þær gefa til kynna að gerðar hafi verið ítrekaðar, misheppnaðar tilraunir til að koma fyrir æðalegg. Þá sagði hann áverka benda til þess að æðaleggurinn sem á endanum var notaður hafi stungið gat á æðina.

Lyfjakokteillinn jók á þjáningarnar

Lagaprófessorinn Deborah Denno við Fordham háskóla, sem sérhæfir sig í aftökum með banvænum lyfjasprautum, hefur fordæmt aftökuna og segir aftökusveitina hafa gerst seka um stórkostlega vanhæfni.

„Vanhæf aftökuteymi eins og þetta hafa verið til í kerfinu áratugum saman og þeim mun ríkari er ástæðan til þess að svipta leyndarhulunni af framkvæmd aftaka,“ segir Denno.

Þá segir lögfræðingurinn Megan McCracken, sérfræðingur í dauðadómum við lagadeild Berkeley háskóla, að þriggja lyfja kokteillinn sem Lockett var gefinn hafi aukið enn á þær þjáningar sem hann mátti þola. Hún bendir jafnframt á að Oklahomaríki hafi ekki haft neina viðbragðsáætlun fyrir tilfelli sem þessi, þar sem aftaka misheppnast.

Aftökum á dauðadeild í Oklahoma hefur verið frestað ótímabundið eftir dauða Locketts vegna harðrar gagnrýni sem fylgdi í kjölfarið. Meðal annars sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti að þetta væri mikið áhyggjuefni og vekti mikilvægar spurningar um hvernig dauðarefsingum sé beitt.

Sjá einnig:

„Pyntaður til dauða“

Aftakan mistókst en fanginn lést

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert