Ban biður um vopnahlé

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, biðlaði í dag til Ísrales- og Palestínumanna um að gera vopnahlé sín á milli á Gaza. Hann hvatti báðar hliðar til að sýna stillingu, þar sem Mið-Austurlönd mættu ekki við öðru stríði.

Alls hafa 83 Palestínu­menn á Gaza látið lífið í loft­árás­um Ísra­els­manna, sem þeir kalla verndaraðgerðir, síðan þær hóf­ust á þriðju­dag, að sögn palestínskra stjórn­valda. Mörg hina látnu eru sögð vera kon­ur og börn. Í dag dóu a.m.k. 32 og var mannfallið mest í borginni Khan Ynis.

Í gærkvöldi féll sprengja á kaffihús í borginni, þar sem fótboltaáhugamenn fylgdust með Argentínu og Hollandi keppa til undanúrslita á HM. Þar létu 9 manns lífið og 15 særðust.

Klukkustund síðar vörpuðu ísraelskar herflugvélar sprengjum á tvö hús annars staðar í borginni, þar sem 4 konur og 4 börn létu lífið.

Í þriðju loftárásinni lést 19 ára gamall piltur og 75 ára gamall faðir hans.

Þá lést 4 ára gamalt barn af sárum sínum eftir loftárás í dag.

Í Nusseirat flóttamannabúðunum á miðju Gaza svæðinu lét einn maður lífið í loftárás.

Í Zatun, austur af Gazaborg, dó mótorhjólamaður þegar sprengju var varpað í grennd við hann og annar mótorhjólamaður varð fyrir flugskeyti og lést í Deir al-Balah á miðju Gazasvæðinu nokkrum klukkustundum síðar.

Í bænum Jabaliya í norðurhluta svæðisins lét maður lífið í loftárás og nokkrum stundum síðar var sprengju varpað á bíl sem í voru þrír menn, sem allir dóu. Þeir voru allir meðlimir í íslömsku skæruliðasamtökunum Al-Quds, samkvæmt heimildum Afp.

Þrír menn til viðbótar létu lífið í Gazaborg þegar sprengju var varpað á bíl þeirra, og í norðurhluta svæðisins dó 5 ára gamall drengur í bænum Beit Lahiya þegar hann varð fyrir flugskeyti Ísraelshers.

Þá segja læknar að 22 ára gamall maður hafi í dag látist af sárum sem hann hlaut á norðurhluta Gazasvæðisins, en ekki fylgdi sögu hvenær hann særðist.

Á þriðjudag, fyrsta degi sprengjuárása Ísraelsmanna, lét 21 maður lífið á Gaza. Fyrstu tvo sólarhringana rigndi 750 sprengjum yfir Gaza. Árásirnar eru þær umfangsmestu síðan í nóvember 2012.

Frá Gaza var 117 flugskeytum skotið á Ísrael á þriðjudag, 90 til viðbótar í gær og 120 í dag, fimmtudag. Ekkert dauðsfall hefur orðið vegna sprenginganna Ísraelsmegin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert