Bandarískur njósnari rekinn frá Þýskalandi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. JOHANNES EISELE

Bandarískum leyniþjónustumanni hefur verið vísað frá Þýskalandi vegna meintra njósna um þýsk yfirvöld.

„Fulltrúi bandarísku leyniþjónustunnar í bandaríska sendiráðinu í Berlín hefur verið beðinn um að yfirgefa landið. Beiðnin kemur fram vegna yfirstandandi rannsóknar ríkissaksóknara auk ýmissa spurninga sem vöknuðu um starf bandarísku leyniþjónustunnar í Þýskalandi fyrir nokkrum mánuðum. Yfirvöld líta alvarlegum augum á málið,“ segir Steffen Seibert, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar.

Seibert segir jafnframt að Þýskaland óski áfram náinni og traustri samvinnu við Bandaríkin.

Clemens Binninger, meðlimur í þingflokki Angelu Merkel, Kristilegra demókrata, segir að beiðnin sýni viðbrögð þýskra stjórnvalda við viljaleysi bandarískra yfirvalda til þess að svara þeim spurningum sem vaknað hafa síðustu mánuði um njósnir hins síðarnefnda ríkis.

Frávikningin þykir vera enn ein birtingarmynd þessar spennu sem hefur myndast vegna njósna Bandaríkjamanna, sér í lagi um eigin bandaþjóðir. Fréttir af því bárust í fyrrahaust að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hafði hlerað farsíma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Í kjölfarið sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti að framvegis yrði ekki njósnað um bandamenn Bandaríkjanna.

Þýskaland er ekki aðili að samningi Bandaríkjanna sem bannar njósnir aðildarríkja hvort um annað, þrátt fyrir vilja til þess að gerast aðili. Aðilar samningsins eru Bandaríkin, Bretland, Nýja-Sjáland, Ástralía og Kanada.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert