Úlfurinn fékk skilorðsbundinn dóm

Norski þungarokkarinn og öfgamaðurinn Kristian „Varg“ Viker­nes var í Frakklandi í vikunni dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 8 þúsund evrur í sekt fyrir bloggskrif sín þar sem hann lofsyngur stríðsglæpi og mismunun gagnvart gyðingum og múslímum.

Vikernes, 41 árs, var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna né heldur lögfræðingur hans. Vikernes hefur neitað því að hafa skrifað kynþáttaníð á bloggvefinn og segir að það hljóti einhver annar að hafa staðið á bak við skrifin.

Kristian Vikernes var handtekinn í júlí í Correze héraði í Frakklandi grunaður um að undirbúa hryðjuverkaárás. Hann var hins vegar látinn laus tveimur sólarhringum síðar vegna skorts á sönnunargögnum.

Hann var hins vegar ákærður fyrir rasisma á bloggi sínu og gögn sem hann var með í tölvu sinni töldust einnig kynþáttaníð.  

Rokkarinn, sem tók upp nafnið Varg (úlfur) komst fyrst í fréttirnar í ágúst 1993 er hann drap annan norskan tónlistarmann í Noregi. Eins var hann sakaður um að hafa kveikt í kirkjum í Noregi. Hann var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir morðið en var látinn laus eftir sextán ár og flutti þá til Correze ásamt franski eiginkonu sinni. 

Vikernes sagði við réttarhöldin að norska rannsóknarlögreglan hefði upplýsingar um 350 manns sem þættust vera Varg Vikernes á Facebook. Því væri auðvelt fyrir einhvern að skrifa blogg í hans nafni.

Vikernes sleppt úr haldi

Undirbjó umfangsmikil hryðjuverk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert