Bindur vonir við fleiri vopnahlé

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vinnur nú hörðum höndum að því að binda enda á blóðbaðið á Gaza-svæðinu. Að sögn embættismanns í bandaríska utanríkisráðuneytinu standa vonir Kerrys til þess að bæði ísraelsk stjórnvöld og samtökin Hamas samþykki fleiri tímabundin vopnahlé. Það myndi auðvelda viðræður á milli deiluaðilanna.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir að Hamas hafi brotið gegn skilmálum vopnahlésins sem samtökin sjálf hafi boðað til

Í morgun féllust samtökin á beiðni Sameinuðu þjóðanna um að boða til eins sólarhrings vopnahlés af mannúðarástæðum á Vesturbakkanum. Liðsmenn úr röðum Hamas skutu flugskeytum á Ísrael í nótt en Ísraelsher svaraði árásunum með annarri atlögu.

Netanyahu segist ekki vilja fallast á vopnahlé og hefur sagt að árásum Ísraelshers á Gaza-svæðinu verði haldið áfram. Nokkrir hafa látið lífið í átökunum í dag.

Næstum þrjár vikur eru síðan her ísraelskra stjórnvalda hóf hernaðaraðgerðir sínar á Gaza-svæðinu. Tala látinna hefur farið ört hækkandi og er nú talið af yfir þúsund Palestínumenn hafi fallið í átökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert