Assange hyggst yfirgefa sendiráðið

Julian Assange ræddi við blaðamenn í morgun ásamt Ricardo Patino, …
Julian Assange ræddi við blaðamenn í morgun ásamt Ricardo Patino, utanríkisráðherra Ekvadors, í sendiráði Ekvadors í London. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, segist ætla að yfirgefa sendiráð Ekvador í Lundúnum fljótlega. Hann hefur dvalið í sendiráðinu í tvö ár en hann leitaði hælis þar í júní 2012.

„Ég get staðfest að ég mun yfirgefa sendiráðið fljótlega,“ sagði hann á blaðamannafundi sem var haldinn í morgun.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir að Assange hafi ekki upplýst hvenær hann muni yfirgefa sendiráðið en hann sagði að það væri líklega ekki vegna þeirra ástæðna sem greint hefði verið frá í fjölmiðlum sem séu í eigu Ruperts Murdoch. En greint hefur verið frá því að Assange glími við heilsubrest og þurfi að leita sér læknisaðstoðar.

Ricardo Patino, utanríkisráðherra Ekvador, segir að Assange, muni áfram njóta verndar. Handtökuskipun  var gefin út á hendur Assange í Svíþjóð seint á árinu 2010 vegna ásakana á um nauðgun og kynferðislegt ofbeldi. Assange neitar sakargiftum.

Hann leitaði hælis í sendiráði Ekvadors í júní 2012 þegar breskur dómstóll hafði komist að þeirri niðurstöðu að vísa ætti Assange úr landi. 

Assange, sem er 43 ára gamall, óttast að hann verði færður í hendur bandarískra yfirvalda því Wikileaks birti opinberlega leynileg hernaðarskjöl er varða stríðsátökin í Írak og Afganistan. 

Assange sagði á blaðamannafundinum að heilsu hans hefði hrakað sl. tvö ár en hann tók fram að það sem hefði birst í fjölmiðlum Murdoch væru ekki ástæður brottfararinnar. Assange tjáði sig hins vegar ekki frekar um heilsu sína.

Ljóst er að ef hann yfirgefur sendiráðið þá verður hann handtekinn þegar í stað og framseldur til Svíþjóðar. Fram kemur á vef BBC, að hann verði líklega framseldur innan tíu daga frá handtöku nema eitthvað sérstakt komi upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert