Íran veitir Kúrdum ráðgjöf

Hermaður Kúrda í Írak stendur vörð.
Hermaður Kúrda í Írak stendur vörð. AFP

Stjórnvöld í Íran veita nú Kúrdum í Írak ráðgjöf í baráttu þeirra við Íslamska ríkið. Þetta er haft eftir Hossein Amir-Abdollahian, aðstoðarutanríkisráðherra Íran, í frétt AFP í dag. Þar segir hann að Íran veiti bæði stjórnvöldum í Írak og Kúrdum í norðurhluta landsins ráðgjöf.

Ráðherrann tók ennfremur fram að engir íranskir hermenn væru í Írak. Þá hefðu írönsk stjórnvöld ekki sent vopn til landsins. Hins vegar hefðu þau deilt með stjórnvöldum í Írak og leiðtogum Kúrda reynslu sinni og veitt þeim ráðgjöf. Sakaði hann Bandaríkjamenn um að aðhafast ekkert til að draga úr flæði fjármagns til hryðjuverkahópa í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess. Á sama tíma væri Íran undir nákvæmu eftirliti í þeim efnum.

Ennfremur upplýsti talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, Marzieh Afkham, í dag að Íran ætti í viðræðum við evrópsk ríki um þá hættu sem stafaði af hryðjuverkum spurður um ummæli Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, um að hann væri opinn fyrir samstarfi við Íran og fleiri ríki á svæðinu í baráttu við Íslamska ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert