Heimilislausir annast leiðsögn

Hverjir þekkja Parísarborg betur en þeir sem búa á götum hennar? Sennilega fáir og nú er hægt að kaupa leiðsögn hjá fólki sem annað hvort býr á götunni eða hefur búið þar.

Vincent, 39 ára, er einn þeirra og nú tekur hann að sér að sýna ferðalöngum borgina sína og segja þeim sögur af byggingum og íbúum Parísar.

Þegar fréttamaður AFP hittir Vincent að máli eru nokkrir ferðamenn með honum í för og láta ekki regnið trufla sig við borgarröltið.

„Ég er að upplifa hina raunverulegu París,“ segir Marco sem kemur frá Mexíkó en er á heimshornaflakki. 

Um átak er að ræða á vegum Alternative Urbaine sem miðar að því að koma heimilislausum á réttan kjöl. 

Árlega heimsækja um 27 milljónir ferðamanna París eða margfalt fleiri en íbúar borgarinnar eru. Fjölmargir útigangsmenn eru í borginni og bjóða borgaryfirvöld og hjálparsamtök upp á ýmis úrræði fyrir þá. Til að mynda tjöld til að gista í, pappakassa til að búa í og súpueldhús. En þrátt fyrir ýmiskonar aðgerðir þá hefur heimilislausum fjölgað og er það meðal annars rakið til efnahagskreppunnar undanfarin ár og mikillar hækkunar á húsaleigu og fasteignaverði.

Frá árinu 2001 hefur heimilislausum fjölgað um 84%, samkvæmt upplýsingum frá Paris Urban Planning Agency. Nýjustu opinberu tölur eru frá árinu 2012 og samkvæmt þeim eru 28 þúsund Parísarbúar án fasts aðseturs. Konum og fjölskyldum hefur fjölgað mjög í þessum hópi og hafa neyðarskýli ekki undan við að taka við fjölskyldufólki sem á hvergi höfði sínu að halla.

Vincent starfaði áður sem bókhaldari en eftir að hafa veikst af þunglyndi missti hann vinnuna og endaði á götunni líkt og fjölmargir þeirra sem glíma við veikindi þurfa að upplifa. Í febrúar sá hann atvinnuauglýsingu frá Alternative Urbaine, fór í viðtal og var ráðinn í kjölfarið. Vincent sér um leiðsögn um tuttugasta hverfi þar sem fjölmargir innflytjendur og verkamenn búa. Hann sá fljótt að tuttugasta hverfi var spennandi staður fyrir ferðamenn enda hverfi með sál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert