Bretar auka varnir gegn hryðjuverkum

David Cameron
David Cameron AFP

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, mun í dag kynna aðgerðir gegn meintum hryðjuverkamönnum. Bretar hafa aukið viðbúnað vegna mögulegrar hryðjuverkaárásar. Er nú talið mjög líklegt að tilraun verði gerð til að fremja hryðjuverk í Bretlandi.

Cameron mun ávarpa þingið síðdegis í dag þar sem hann kynnir nýjar aðgerðir sem  gripið verður til gagnvart fólki sem grunað er um að undirbúa hryðjuverk án þess að hægt sé að höfða mál gegn viðkomandi.

Breskir fjölmiðlar fjalla um þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir stjórnvöld. Er meðal annars nefnt að ekki sé útilokað að það verði gert auðveldara að taka vegabréf af fólki og að leyniþjónustan fái aukinn aðgang að farþegalistum flugfélaga. Eins að þeir sem eru grunaðir um að hafa barist með skæruliðum í Írak og Sýrlandi fái ekki að snúa aftur til Bretlands í einhvern tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert