„Gríðarstór dagur fyrir Skotland í dag! Neikvæð kosningarbarátta nei-liða að undanförnu hefur ekki sannfært mig. Spenntur fyrir útkomunni. Gerum þetta!“
Breski tenniskappinn Andy Murray, sem fæddur er í Glasgow í Skotlandi og er í tólfta sæti á alþjóðlegum heimslista ATP, viðraði nú síðast skoðanir sínar á Twitter-aðgangi sínum og hafa ellefu þúsund manns endurbirt færslu hans, þar á meðal leiðtogi já-manna, Alex Salmond. Sjálfstæðisbarátta Skota er í algleymingi um þessar mundir en opnað var á kjörstöðum þar í landi í morgun. Ansi mjótt er á munum og hafa báðar fylkingar verið duglegar við að tefla fram heimsþekktum persónum til að tala sínu máli.
Murray er sjálfur búsettur í London og í Bandaríkjunum og getur því ekki kosið en hvetur Skota eindregið til að kjósa með sjálfstæði. Hann hefur áður lýst yfir óeiningu með Englendingum en árið 2006 tjáði hann fjölmiðlum að honum væri slétt sama hver ynni heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu svo lengi sem England myndi ekki sigra. Hann tjáði auk þess fjölmiðlum vestanhafs fyrir um mánuði síðan að hann myndi spila undir formerkjum Skota ef sjálfstæði yrði niðurstaða kosninganna í dag. Meðal talsmanna nei-liða má nefna fyrrum Bítilinn Paul McCartney, tónlistarmanninn David Bowie og íþróttahetjuna David Beckham.