Pistorius er blankur

Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius er blankur, segir verjandi hans, Barry Roux, en í morgun hófst fimmti dagur réttarhaldanna þar sem ákveðið verður hver refsing hans verður fyrir manndráp af gáleysi.

Roux segir að sjö mánaða löng réttarhöld hafi haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu hlauparans, „hann er ekki bara blankur heldur líka niðurbrotinn“, sagði Roux í réttarsalnum í morgun. Pistorius brast í grát þegar verjandi hans fjallaði um fjármál hans í réttinum. 

Roux bað dómarann, Thokozile Masipa, að hafa „ubuntu“ í huga þegar refsing Pistorius verður ákvörðuð. Ubuntu má þýða sem manngæsku á íslensku. BBC telur að Masipa muni kveða upp refsinguna á þriðjudag.

Pistorius varð unnustu sinni Reevu Steenkamp að bana á valentínusardaginn í fyrra. Hann var sýknaður af ákæru um að hafa myrt hana en eins og áður sagði dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi. Hámarksrefsingin sem hann gæti fengið er 15 ára fangelsi. 

Fram kom í máli saksóknara, Gerrie Nel, í gær að Pistorius hefði boðið fjölskyldu Steenkamp peninga í bætur. Hann gagnrýndi þetta boð hlauparans á ný í morgun og sagði að hann teldi að með þessu hefði Pistorius verið að sýna sig. 

Fjölskylda Reevu Steenkamp hafnaði hárri fjárhæð sem Pistorius bauð þeim og sagði hana blóðpeninga. Hins vegar þáði fjölskyldan lága greiðslu mánaðarlega frá hlauparanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert