Framdi sjálfsvíg eftir slysið

Suðurkóreskur embættismaður sem sá um öryggismál á tónleikum þar í landi þar sem sextán tónleikagestir létu lífið framdi sjálfsvíg í gær.

Talið er að járnrist ofan á loftræstiopi, sem margir stóðu á, hafi losnað og fólkið fallið um 20 metra niður á bílstæði sem var undir tónleikasvæðinu. Um 700 manns voru á tón­leik­un­um. Tónleikarnir voru haldnir á fimmtudagskvöld. 

„Hugsið vel um börnin mín,“ sagði í stuttu bréfi sem maðurinn skrifaði eiginkonu sinni, en þar sagðist hann einnig taka dauða fólksins afar nærri sér.

Maðurinn stökk niður af byggingu nálægt tónleikasvæðinu. Hann fannst snemma í morgun, nokkrum klukkustundum eftir að hann hafði verið yfirheyrður af lögreglu vegna málsins.

Vitni sem rætt hafa við fjölmiðla í Suður-Kóreu segja að engir öryggisverðir eða girðingar hafi verið til staðar til að koma í veg fyrir að fólk stæði á járnristinni. Eitt vitnið sagði að umsjónarmaður tónleikanna hefði ítrekað beðið fólk að fara af grindinni, en án árangurs.

Stórslys á tónleikum. 

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert