Breskir sérsveitarmenn verja Kobane

Talið er að sveit breskra sérsveitarmanna (SAS) hafi leikið lykilhlutverk í vörnum bæjarins Kobane í norðurhluta Sýrlands að undanförnu þar sem hermenn Kúrda hafa barist við vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams undanfarnar vikur. Opinberlega eru engir breskir hermenn í Sýrlandi.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Express að sérsveitarmennirnir hafi komið til Kobane fyrir um tveimur vikum síðan en hlutverk þeirra hafi einkum verið að leiðbeina herþotum Bandaríkjamanna og annarra þjóða við loftárásir á vígamenn Ríkis íslams. Þeir hafi meðal annars leiðbeint herþotum við árás á skriðdreka og brynvarðar bifreiðar sem hryðjuverkasamtökin höfðu komist yfir. Þegar loftárásinni var lokið luku þeir við verkið á jörðu niðri.

Haft er eftir heimildarmanni að bandarísku herflugmennirnir væru mjög ánægðir með framgöngu bresku sérsveitarmannanna sem hafi tekið mikla áhættu. Þeir hefðu verið heppnir að sleppa lifandi ef vígamenn Ríkis íslams hefðu haft uppi á þeim. Sérsveitarmennirnir hefðu bjargað hundruðum lífa í Kobane með frammistöðu sinni.

Fram kemur að breskir sérsveitarmenn hafi verið að störfum í Írak undanfarna tvo mánuði en þeir séu greinilega einnig að störfum í Sýrlandi. Um 200 kúrdískir hermenn, sem breskir sérsveitarmenn hafi þjálfað, færu bráðlega til Sýrlands til að taka þátt orrustunni um Kobane.

Þá segir í fréttinni að auk Bretanna séu að störfum í Sýrlandi bandarískir Delta Force-sérsveitarmenn. Báðar sveitirnar hafi tekið þátt í að hrinda árásum Ríkis íslams á Kobane. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert