Mega gefa barni votta blóð

Foreldrar drengsins eru vottar Jehóva en samkvæmt trú þeirra mega …
Foreldrar drengsins eru vottar Jehóva en samkvæmt trú þeirra mega þeir ekki „neyta blóðs“. Það hefur verið túlkað sem svo að þeir megi ekki þiggja blóðgjafir. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Dómari við fjölskyldurétt í London hefur kveðið úr um að læknum sé heimilt að gefa syni tveggja votta Jehóva blóð þrátt fyrir mótmæli foreldranna á trúarlegum forsendum. Blóðgjöfin væri drengnum, sem brenndist illa, fyrir bestu þrátt fyrir staðfasta trú foreldra hans.

Það var heilbrigðisstofnun í London sem höfðaði málið fyrir undirrétti sem er einn þriggja dómstóla sem mynda hæstaréttarkerfi Bretlands. Hvorki nafn drengsins né aldur hans kom fram í dómnum, að því er kemur fram í frétt á vef The Guardian. Læknar drengsins báru að hann gæti þurft á blóðgjöf að halda vegna sára sinna.

„Ég efast ekkert um að þau elska son sinn heitt. Ég efast heldur ekkert um að þau andmæli því að honum verði gefið blóð vegna einlægrar trúar sinnar. Ég vona að þau muni skilja af hverju ég hef komist að þeirri niðurstöðu sem ég hef gert, en hún ræðst af velferð hans,“ segir í ákvörðun dómarans.

Ástæðan fyrir því að vottar hafna blóðgjöfum er trúarleg fremur en læknisfræðileg að því er kemur fram á vef votta Jehóva á Íslandi. Bæði Gamla og Nýja testamentið mæli skýrt fyrir um að þeir eigi að halda sig frá blóði. Auk þess líti guð þeirra svo á að blóð tákni líf.

„Við forðumst því notkun blóðs, ekki aðeins vegna hlýðni við Guð heldur í virðingarskyni við hann sem lífgjafa okkar,“ segir á vefsíðu þeirra.

Frétt The Guardian af málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert