Telja pyntingarnar réttlætanlegar

Hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001. Meirihluti Bandaríkjamanna telur pytingar …
Hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001. Meirihluti Bandaríkjamanna telur pytingar á grunuðum hryðjuverkamönnum hafi verið réttlætanlegar í kjölfar þeirra.

Meirihluti Bandaríkjamanna telur að meðferð leyniþjónustumanna á mönnum sem grunaðir voru um aðild að hryðjuverkum í kjölfar árásanna 11. september 2001 hafi verið réttlætanleg. Um helmingur telur að aðferðirnar sem beitt var teljist til pyntinga, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir bandaríska blaðið The Washington Post og fréttastofu ABC.

Nærri því tvöfalt fleiri styðja hrottalegar aðferðir bandarísku leyniþjónustunnar sem lýst var í skýrslu nefndar Bandaríkjaþings en eru mótfallnir þeim, samkvæmt könnuninni. Þannig styðja 59% pyntingarnar en aðeins 31% eru þeim andsnúnar. Mikill meirihluti taldi einnig að pyntingarnar hefðu skilað mikilvægum upplýsingum.

Almennt séð töldu 58% svarenda að það væri oft eða stundum réttlætanlegt að pynta grunaða hryðjuverkamenn.

Í skýrslu leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings sem birt var í síðustu viku kemur fram að þær aðferðir sem bandarískir leyniþjónustumenn beittu við yfirheyrslur á föngum, þar á meðal vatnspyntingar, væru ekki til þess fallnar skila mönnum mikilvægum upplýsingum. Þar kemur einnig fram að yfirmenn CIA hafi kerfisbundið beitt blekkingum um gagnsemi aðferða sinna.

Frétt The Washington Post af niðurstöðum skoðanakönnunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert